David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur sætt pressu undanfarna daga til að taka á skattaskjólum í ljósi þess að fjölmargir ríkir einstaklingar hafa nýtt sér eyjur á bresku yfirráðasvæði til að stofna aflandsfélög til að forðast skatta. Þrýstingurinn kemur í kjölfar leka frá lögfræðistofunni Mossack Fonseca á Panama-skjölunum svokölluðum, þar sem kemur fram að 100 þúsund aflandsfélög fundust á Bresku Jómfrúaeyjunum.
Cameron hefur einnig verið í sviðsljósinu vegna tengsla föður hans, Ians Cameron, við aflandsfélag í skattaskjóli.
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, hefur lýst því yfir að ríkisstjórnin þurfi að taka á skattsvikum. Hann lagði til í ræðu í gær að Bretland myndi setja beinar skattareglur á breskum yfirráðsvæðum til þess að ganga úr skugga um að löndin fylgdu breskum skattareglum. Samkvæmt frétt BBC um málið er talið að Bretland hafi stóru hlutverki að gegna í umræðunni þar sem stór hluti skattaskjóla sé á breskum yfirráðasvæðum, meðal annars á Bresku Jómfrúaeyjunum og Ermarsundseyjunum.
Einhver lönd sem hafa tengst aflandseyjum hafa nú þegar hert skattareglur, má þar nefna Sviss, Ermarsundseyjarnar og Lúxemborg, en önnur lönd, meðal annars Panama og Bresku Jómfrúaeyjarnar, hafa verið gagnrýndar fyrir að gera ekki nóg.
Í næsta mánuði mun Cameron stýra alþjóðlegum leiðtogafundi í London um skattasvik og skattaskjól. Frá árinu 2009 hafa nú þegar sjö hundruð samningar verið undirritaðir til að ýta undir gagnsæi í skattamálum á alþjóðavettvangi.
Greinin birtist fyrst í Markaðnum þann 6. apríl
