Körfubolti

Jou Costa: Ótrúleg vörn í þrjá leikhluta

Ólafur Haukur Tómasson skrifar
Jou Costa.
Jou Costa. Vísir
Jose Maria Costa, þjálfari Tindastóls, var vitanlega hæstánægður með sigur sinna manna á Keflavík í kvöld en með sigrinum tryggði Tindastóll sér sæti í undanúrslitum úrslitakeppni Domino's-deildar karla.

„Eins og þú getur ímyndað þér þá er ég afar ánægður,“ sagði hann eftir leikinn. „Það er frábært að hafa unnið þetta lið eins og við gerðum.“

Hann segir að það hafi skipt miklu hversu ákafir hans menn voru strax frá fyrstu mínútu.

„Það er okkar leikur - að spila hart og hlaupa mikið. Og ef við getum ekki hlaupið þá að fá góða hreyfingu á boltann. Við gerðum það fullkomlega í dag.“

„Varnarleikurinn var lykilatriði. Þeir voru með ellefu stig í fyrsta leikhluta og sautján í öðrum. Vörnin var ótrúleg fyrstu þrjá leikhlutana.“

Hann segist hlakka til undanúrslitanna en óljóst er hvaða liði Stólarnir mæta næst.

„Við skulum sjá til hvað Njarðvík gerir. Ef Njarðvík vinnur vitum við ekki hverjum við mætum. Ef Stjarnan vinnur þá fáum við KR.“

„En það er sama hvað gerist, við erum komnir í undanúrslitin og erum hæstánægðir með það.“

Það var troðið hús í Síkinu í kvöld og stemningin mögnuð. Costa segir að það sé frábært að spila við slíkar aðstæður.

„Ég sagði leikmönnum að við gætum ekki tapað. Það væri ekki hægt í þessari stemningu. Okkur finnst að við getum ekki tapað á þessum velli.“

Nánari umfjöllun og frekari viðtöl má finna hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×