Innlent

Fermetraverð hefur hækkað um allt að 58 prósent frá hruni

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Meðalverð á fermeter í fjölbýlishúsum á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um á bilinu 20 til 50 prósent frá árinu 2009.
Meðalverð á fermeter í fjölbýlishúsum á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um á bilinu 20 til 50 prósent frá árinu 2009. Vísir/Vilhelm
Frá hruni hefur fasteignaverð hækkað um allt að 58 prósent miðað við nýjustu tölur Þjóðskrár um meðalfermetraverð fjölbýlishúsa. Mesta hækkunin hefur átt sér stað í Garðabæ, miðborg Reykjavík, á Seltjarnarnesi og í Fossvogi. Þar hefur meðalverð á hvern seldan fermetra hækkað á bilinu 50 til 58 prósent.

Miðborgin og Vesturbærinn dýrustu staðirnir

Dýrasti fermetrinn í fjölbýli er samkvæmt gögnunum í miðborginni, á svæði sem er innan Hringbrautar og Snorrabrautar í Reykjavík. Þar var meðalverð á fermetra tæpar 427 þúsund krónur árið 2015.

Næstdýrasti fermetrinn er í Fossvogi, í Löndunum, þar sem að meðaltali var greitt 384 þúsund fyrir. Fermetraverðið í Vesturbænum var á svipuðum slóðum, 383 þúsund krónur, sem og í Sjálandshverfinu í Garðabæ, 381 þúsund krónur.

Á hinum endanum eru Vangar í Hafnarfirði, þar sem fermetrinn kostaði að meðaltali 252 þúsund krónur, í Seljahverfinu í Reykjavík, þar sem verðið var gott sem það sama, og í Álfaskeiði í Hafnarfirði, 266 þúsund. Verð í Álfaskeiði hefur þó sveiflast talsvert á milli ára og þurfa tölur þaðan að skoðast í því ljósi.

Umtalsverð hækkun síðustu ár

Fasteignaverð hrundi á árunum 2009 og 2010 en samkvæmt gögnunum lækkaði verð á nær öllum svæðum á þeim tíma. Álfaskeið í Hafnarfirði sker sig úr í gögnunum en þar hækkaði fermetraverð um 27 prósent á milli áranna 2008 og 2009. 

Það er algjört einsdæmi á þessum tíma. Árið eftir lækkaði svo verð þar um 42 prósent á milli ára, sem er mun meira en á öðrum svæðum, þar sem algengt var að meðalverð fermetra lækkaði um 5-10 prósent á milli ára.

Frá 2010 eru dæmi um að svæði hafi hækkað um rúmlega 60 prósent miðað við meðalverð fermetra fyrir síðasta ár. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×