Innlent

Verðhækkun bitnar á fötluðum

Þórdís Valsdóttir skrifar
Mynd/RRV Consulting
Verðhækkun Isavia á bílastæðum við Keflavíkurflugvöll mun koma til með að bitna á þeim hópi fatlaðra sem geta ekki nýtt sér almenningssamgöngur að Keflavíkurflugvelli.

Tilkynnt var um verðhækkunina í febrúar, en hún tekur gildi þann 1. apríl. Í tilkynningu Isavia kemur fram að verðhækkun á langtímastæðum við flugstöðina verði frá 32 til 100 prósent.

Fatlað fólk sem hyggst leggja land undir fót hefur ekki annarra kosta völ en að ferðast til og frá Keflavíkurflugvelli á eigin vegum því almenningssamgöngur að flugvellinum eru ekki aðgengilegar fötluðum. Hvorki flugrútan, ferðaþjónusta fatlaðra né Strætó bjóða upp á þjónustu fyrir fatlaða frá Reykjavík að Keflavíkurflugvelli. Þessir einstaklingar þurfa því leggja bílum sínum í langtímastæði við flugstöðina og þar af leiðandi bitnar verðhækkunin verulega á þessum hópi fólks.

Fötluðum er enginn afsláttur veittur af langtímastæðum en Isavia býður þó upp á þá þjónustu fyrir fatlaða að leggja bílum á brottfararbílastæði og starfsfólk Isavia færir svo bílinn fyrir viðkomandi og hann verður þá á komustæði við heimkomu. Þjónustan er gjaldfrjáls en greitt er fyrir langtímastæði eftir verðskrá á meðan. Illmögulegt er fyrir flesta fatlaða sem notast við hjálpartæki svo sem hjólastól að komast frá langtímastæðum að flugstöðinni og því er þessi þjónusta til bóta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×