Innlent

Hundruð nýrra stúdentaíbúða rísa á háskólasvæðinu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá undirritun samkomulagsins í dag.
Frá undirritun samkomulagsins í dag. mynd/reykjavíkurborg
Um 240-300 nýjar stúdentaíbúðir munu rísa á háskólasvæðinu og þá munu Vísindagarðar stækka samkvæmt samkomulagi sem Reykjavíkurborg, Háskóli Íslands og Vísindagarðar gerðu með sér í dag.

Samkomulagið tryggir Félagsstofnun stúdenta (FS) byggingalóðir á háskólasvæðinu og Vísindagarðar fá aukinn byggingarrétt og stækkun á sínu svæði. Endanlegur fjöldi íbúða fæst við staðfestingu deiliskipulags sem unnið hefur verið fyrir svæðið.

Í deiliskipulagsvinnu er gert ráð fyrir að unnið verði sameiginlega að því að afmarka aðra byggingarreiti fyrir stúdentaíbúðir á háskólasvæðinu, samtals allt að 400 íbúðir.

Undir samkomulagið rituðu Dagur B. Egggertsson, borgarstjóri, Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, og Eiríkur Hilmarsson, framkvæmdastjóri Vísindagarða HÍ. Samkomulagið vottuðu svo Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri FS, og Aron Ólafsson, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ) en bæði FS og SHÍ hafa óskað eftir fleiri stúdentaíbúðum á háskólasvæðinu.

Félagsstofnun stúdenta á og leigir út um 1100 stúdentaíbúðir og mun því íbúðum fjölga verulega. Hluti nýju íbúðanna verður við Gamla Garð sem er elsti stúdentagarður háskólans sem opnaður var fyrir rúmum 80 árum.

Flestar íbúðanna verða þó á reit Vísindagarða HÍ á horni Sæmundargötu og Eggertsgötu í nágrenni við aðra sútdentagarða. Áætlað er að þar rísi á bilinu 200-230 íbúðir.

Sjá má yfirlitsmynd af hvar íbúðirnar verða hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×