Innlent

Árs fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. vísir/gva
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag 32 ára gamlan karlmann í 12 mánaða fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás í september 2014. Níu mánuðir eru skilorðsbundnir til þriggja ára en dómurinn tók tillit til þess að maðurinn hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi.

Maðurinn var ákærður fyrir tilraun til manndráps en til vara fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa ráðist á annan mann að morgni 29. september 2014. Árásin átti sér stað í eða við anddyri heimilis brotaþola en á hann var ráðist með flökunarhnífi sem var með 15 sentimetra löngu blaði.

Samkvæmt ákæru átti maðurinn að hafa brugðið hnífnum eða stungið í átt að hálsi og vanga hans vinstra megin og skorið hann í kinnina þannig að hann hlaut 15 sentimetra skurð frá eyra niður á höku. Þá fékk hann líka skurð í lófa vinstri handar þar sem maðurinn rak hnífinn í þar.

Dómari taldi ekki sannað að maðurinn hefði haft ásetning til að bana þeim sem hann réðst á. Aðdragandi og ástæða átakanna, sem og átökin sjálf, hafi fremur borið það með sér að hann hafi ætlað að ógna brotaþola eða jafnvel valda honum líkamstjóni. Því var maðurinn sýknaður af tilraun til manndráps en hins vegar sakfelldur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás.

Dóm héraðsdóms má sjá í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×