Innlent

Fær miskabætur vegna handtöku og líkamsleitar

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Dómur var kveðinn upp í Hæstarétti í dag.
Dómur var kveðinn upp í Hæstarétti í dag. vísir/gva
Íslenska ríkinu var í Hæstarétti í dag gert að greiða íslenskum karlmanni á fimmtugsaldri 150 þúsund krónur vegna handtöku og líkamsleitar sem hann sætti í tengslum við rannsókn lögreglu á ætluðu fíkniefnabroti hans. Maðurinn hafði farið fram á 1,5 milljónir í miskabætur.

Í dómi Hæstaréttar segir að maðurinn hafi verið sviptur frelsi í rúmar fjörutíu mínútur þegar hann var handtekinn í maí 2014. Í aðdraganda handtökunnar sætti hann líkamsleit en í málinu deildu aðilar um hvort líkamsleitin hefði farið fram að fengnu samþykki hans. Málinu lauk án þess að ákæra hafi verið gefin út.

Forsaga málsins er sú að aðfaranótt mánudagsins 19. maí 2014 stöðvaði lögregla bifreið á Breiðholtsbraut í Reykjavík. Maðurinn var farþegi í bifreiðinni en grunur lék á að ökumaðurinn hafi verið undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Í stefnunni á hendur íslenska ríkinu segir að lögreglumaðurinn hafi farið niðrandi orðum um manninn og kallað hann „alræmdan kókhaus“. Hafi þá verið leitað á honum á vettvangi og hann meðal annars látinn fara úr buxunum. Ekkert hafi fundist við leitina.

Hæstiréttur taldi manninn eiga rétt á miskabótum vegna líkamsleitarinnar og handtökunnar og var íslenska ríkinu því, sem fyrr segir, gert að greiða honum 150 þúsund krónur. Þá var ríkinu jafnframt gert að greiða honum 500 þúsund krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafði í júní í fyrra sýknað íslenska ríkið af kröfum hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×