Erlent

Assad segir þingkosningar fara fram í Sýrlandi 13. apríl

Atli Ísleifsson skrifar
Bashar al-Assad Sýrlandsforseti.
Bashar al-Assad Sýrlandsforseti. Vísir/AFP
Sýrlenskir fjölmiðlar greina frá því að Bashar al-Assad Sýrlandsforseti hafi lýst því yfir að þingkosningar muni fara fram í landinu þann 13. apríl.

Þá hefur hann gefið út tilskipun um að öll héruð landsins muni eiga fulltrúa á þinginu. Þingkosningar fóru síðast fram í landinu í maí 2012.

Greint var frá því í gær að bandarísk og rússnesk stjórnvöld hafi náð samkomulagi um tímabundið vopnahlé í Sýrlandi. Vopnahléið milli sýrlenska stjórnarhersins og uppreisnarhópa í landinu á að hefjast á laugardaginn, 27. febrúar.

Samkomulagið um vopnahléð nær ekki til ISIS, Nusra-hreyfingarinnar og annarra samtaka sem Sameinuðu þjóðirnar skilgreina sem hryðjuverkasamtök. Bæði Bandaríkin og Rússland hafa gert loftárásir gegn þeim liðsmönnum þeirra samtaka.

Rúmlega 250 þúsund manns hafa látið lífið í borgarastyrjöldinni í Sýrlandi sem hófst í mars 2011 og hafa milljónir manna neyðst til að flýja heimili sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×