Innlent

Birti gamalt viðtal og telur það eiga fullt erindi

Jakob Bjarnar skrifar
Ég er nú sagnfræðingur og fjögur ár er ekki langur tími. Mér fannst þetta viðtal eiga svo mikið erindi,“ segir Björn Jón.
Ég er nú sagnfræðingur og fjögur ár er ekki langur tími. Mér fannst þetta viðtal eiga svo mikið erindi,“ segir Björn Jón.
„Mér finnst þetta leiðinlegt. Ég er nú sagnfræðingur og fjögur ár er ekki langur tími. Mér fannst þetta viðtal eiga svo mikið erindi,“ segir Björn Jón Bragason, ritstjóri Reykjavíkur vikublaðs.

RÚV greindi frá því fyrr í dag að Björn Jón hafi endurbirt fjögurra ára gamalt viðtal í Reykjavík vikublað 13. febrúar sem hafði áður birst árið 2012 og birti á vefnum 101Reykjavík punktur is, en það er vefur sem Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg standa að. Viðtalið er það sama en í því ræðir Björn Jón við Pétur Sveinbjarnarson, fyrrverandi framkvæmdastjóra Þróunarfélags Reykjavíkur í Reykjavík.

Háðsglósum rignir yfir ritstjórann

Háðsglósunum hefur rignt yfir Björn Jón á Facebook eftir að RÚV greindi frá þessu og svo aðeins eitt dæmi sé nefnt þá segir Erla Hlynsdóttir blaðamaður í færslu:

„Er með nokkur forsíðuviðtöl til sölu, allt að níu ára gömul. Af hverju að skrifa ný viðtöl þegar það er til fullt af gömlum og góðum viðtölum? Vinsamlegast hafið samband í einkaskilaboðum. Trúnaði heitið.“

Vísir ræddi við Björn Jón og spurði hann hvernig það væri að vera skotspónn kollega í blaðamennsku, dreginn sundur og saman í háði? Björn Jón gefur ekki mikið fyrir það; „þeir geta gert það, ég fylgist ekki mikið með því.“

Fannst viðtalið gott

Á ensku heita fréttir „news“, sem sagt, það sem nýtt er. Má þetta heita í takti við tímann, þetta gamla viðtal? Björn Jón segist hafa ætlað sér að fjalla sérstaklega um miðbæjarmál í þessu tiltekna tölublaði.

Pétur Sveinbjörnsson er klassískur, og orð hans eiga ekki síður vel við nú en fyrir fjórum árum.
„Og átti þetta viðtal sem mér fannst ekki hafa vakið mikla athygli á sínum tíma. Og mér fannst svo fínir punktar í því. Það var ekkert öðruvísi. En, auðvitað, í blaðamennsku, vilja menn hafa það sem er glænýtt. Ég hef verið að skrifa mikið um söguleg efni,“ segir Björn Jón og telur að blaðamenn mættu gjarnan gá betur að samhenginu og sögunni í skrifum sínum.

Björn Jón, sem starfaði á sínum tíma fyrir kaupmenn við Laugaveginn, var að safna saman efni og fróðleik um miðbæjarmálefni. Pétur hefur komið mikið að þeim málum sem framkvæmdastjóri þróunarfélagsins, hafsjór fróðleiks um þessi efni, og hvers vegna að finna hjólið upp aftur? Þegar viðtalið lá fyrir.

„Ég mundi þá eftir þessu viðtali, sem mér þótti svo gott, og hafði ekki fengið næga athygli að mínu mati og fékk leyfi Péturs til að birta það aftur.“

Hefur töluverða reynslu af ritstörfum

Í frétt RUV segir að Björn Jón iðrist sáran, hann vísi til reynsluleysis síns á sviði blaðamennsku og að hann hafi fengið alvarlegt tiltal Björns Inga Hrafnssonar útgefanda blaðsins.

„Ég orðaði þetta nú ekki svona. En, mér þykir þetta leiðinlegt.“

Björn Jón tók við Reykjavík vikublað í október á síðasta ári. Sé litið til reynsluleysis þíns, það hefur ekkert vafist að þér að taka við ritstjórn blaðsins á sínum tíma?

Björn Jón segist ekki vera að reka nein mál með sinni blaðamennsku.
„Nei, ég hef töluvert mikla reynslu af ritstörfum sem ég tel hafa gagnast mér mjög vel. Að vinna með texta.“ Björn Jón segir viðtalið eiga vel við í dag, í raun betur en fyrir fjórum árum. „Varnaðarorð kaupmanna sem Pétur vísar í, þau reyndust sönn, því miður.“

Gengur það ágætlega að vera hlutlaus

Hlutleysiskrafan er oft sögð æðst dyggða hvers blaðamanns en nú fer ekki hjá því að ritstjórinn sé ákafrar meiningar í hinum og þessum málum, hann er frjálshyggjumaður og hefur starfað innan Sjálfstæðisflokksins árum saman. Ertu þá ekki að reka einhver mál í nafni blaðamennskunnar?

„Neinei, en þau mál sem maður hefur mestan áhuga á, eðlilegt er að það endurspeglist í því sem maður er að skrifa um. Ef maður hefur sterkar skoðanir og pælt mikið í ákveðnum málum er ekkert skrítið að maður geri þeim málum meiri skil en öðrum. Ég hef mikinn áhuga á umferðarmálum, reynt að kafa í umferðarmálin og talað við þá sem hafa sérfræðiþekkingu á þeim málum, mikið lesið, gæðamál malbiks.

En, hvernig hefur þér gengið að mæta hlutleysiskröfu sem gerðar eru til blaðamanna?

„Bara vel. Þetta fer ágætlega saman. Áður en ég tók við sem ritstjóri seint í október á síðasta ári, þá sat ég í nokkrum nefndum fyrir Sjálfstæðisflokksins og miðstjórn en sagði mig úr öllu því þegar ég tók við. Mér þótti það ekki samræmast því.“

Björn Jón segir að Björn Ingi hafi gert athugasemdir, en hann gerir ekki ráð fyrir því að þetta hafi neina eftirmála og þetta atvik, það gefur ekki tilefni til að velta fyrir sér stöðu sinni sem ritstjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×