Skoðun

Útúrsnúningar Fréttablaðsins um laun dómara

Skúli Magnússon skrifar
Í Fréttablaðinu í dag er enn á ný fjallað um laun dómara. Í fyrirsögn fréttarinnar segir að laun dómara hafi hækkað um 38% í fyrra. Fullyrðing Fréttablaðsins er í besta falli hálfsannleikur. Laun dómara hækkuðu ekki um 38% í fyrra, eins og raunar kemur fram þegar fréttin er lesin í kjölinn, það voru „grunnlaun dómara“ sem hækkuðu um þessa prósentu.

Með úrskurði kjararáðs 17. desember sl. hækkuðu heildarlaun dómara um 8% og kom sú hækkun til viðbótar almennri 9,3% hækkun þeirra sem heyra undir kjararáð. Úrskurður kjararáðs fól í sér í heildarendurskoðun á launum dómara sem beðið hafði verið eftir um árabil, og fól hann meðal annars í sér að greiðslur sem ákveðnar höfðu verið frá ári til árs voru færðar inn í grunnlaun. Þegar litið er til þróunar launa annarra sem heyra undir kjararáð, svo ekki sé minnst á launskrið á almennum vinnumarkaði, var þessi hækkun sanngjörn og löngu tímabær.

Sú þróun launa dómara frá árinu 2009 að sífellt stærri hluti launa þeirra (meira en þriðjungur) var í formi yfirvinnu og tímabundinna greiðslna var ekki aðeins óásættanleg með hliðsjón af sjálfstæði dómara í starfi og alþjóðlegum viðmiðum sem sett hafa verið um þetta efni. Hún leiddi einnig til þess að eftirlaun þeirra sem tóku lífeyri skv. svonefndri eftirmannsreglu endurspegluðu með engum hætti raunveruleg laun dómara, eins og þeim er þó ætlað að gera. Með því að hlutfall grunnlauna af heildarlaunum var lagfært varð því einnig leiðrétting á eftirlaunum þessara fyrrverandi dómara eða maka þeirra. Sú hækkun, sem var veruleg, var því ekki aðeins óhjákvæmileg heldur einnig sanngjörn.

Fréttin í Fréttablaðinu í dag er í fjórða sinn frá 31. janúar sl. sem blaðið gerir launamál dómara að umtalsefni og lætur að því liggja að þeir hafi fengið meiri hækkanir launa en stenst skoðun. Við vinnslu umræddra frétta hefur aldrei verið leitað viðbragða Dómarafélags Íslands eða annarra sem gætu varpað ljósi á málið frá sjónarhóli dómara. Þessi vinnbrögð Fréttablaðsins valda vonbrigðum.
Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×