Körfubolti

Körfuboltakvöld: Stóra Helenu-málið | Myndband

Snæfell bar sigurorð af Haukum, 84-70, í toppslag í Domino's deild kvenna á miðvikudaginn.

Þetta er annað tap Hauka í síðustu þremur leikjum, eða eftir að liðið fékk Chelsie Schweers til sín frá Stjörnunni. Strákarnir í Domino's Körfuboltakvöldi ræddu þá ákvörðun Hauka að fá Schweers til liðs við sig og hvort hún gæti spilað með Helenu Sverrisdóttur.

„Ég hef talað um að Haukar verði ekki Íslandsmeistarar nema þær fái sér erlendan leikmann,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson.

„En ég held að þetta sé ekki leikmaðurinn sem þær áttu að fá sér. Hún tekur mikið til sín og dribblar mjög mikið. Hún er með boltann í 7-10 sekúndur í upphafi hverrar sóknar.

„Það var rétt ákvörðun að fá sér erlendan leikmann en rangt að fá þennan leikmann,“ bætti Jón Halldór við og Fannar Ólafsson tók dýpra í árinni.

„Þetta er bara peningaeyðsla og rugl. Þetta raskar jafnvæginu í mjög góðu liði.“

Strákarnir ræddu einnig um að Helena, sem er spilandi þjálfari Hauka, hefði ekki viljað tala við fjölmiðla eftir leikinn í Stykkishólmi.

„Þetta er hluti af leiknum. Leikurinn er frá því stígur inn 1-2 tímum fyrir leik, hitar upp og spilar leikinn. Og þú þarft að vera, svo ég sletti, gracious loser og humble winner. Það þýðir ekki að fara í fýlu yfir því að tapa leikjum“ sagði Fannar. Jón Halldór tók í sama streng.

„Ég er í fýlu út í hana, að hún skuli gera þetta. Það vill enginn sjá neinn annan í Haukaliðinu í viðtali, nema kannski Pálínu (Gunnlaugsdóttur). Ég held að hún sé hundfúl með það sem er í gangi í Haukum. Það er einhver kergja í gangi, það hlýtur bara að vera.“

Helena bar hönd fyrir höfuð sér á Twitter í dag þar sem hún segist ekki hafa verið beðin um að koma í viðtal eftir leik. Þá segist hún að hún sé „mikil keppnismanneskja og hata að tapa-en ber alltaf mikla virðingu fyrir fjölmiðlum og veit að það er partur af þessu.“

Umræðuna má sjá í heild sinni hér að ofan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.