Handbolti

Guðmundur: Þetta var óraunverulegt

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðmundur Guðmundsson spilar um fimmta sætið við Frakkland.
Guðmundur Guðmundsson spilar um fimmta sætið við Frakkland. vísir/epa
Evrópumótið í handbolta í Póllandi hefur verið nær taumlaus skemmtun frá upphafi og verður það vonandi til enda þegar úrslitaleikurinn fer fram á sunnudaginn.

Leikirnir hafa margir verið ótrúlega spennandi og mörg úrslit komið á óvart. Ísland vann til dæmis sigur á Noregi í fyrstu umferð mótsins sem þótti ekki óvænt þá en nú eru Norðmenn búnir að vinna Króatíu, Pólland og Frakkland og komnir í undanúrslit.

Úrslitin á miðvikudaginn í lokaumferð milliriðlanna tveggja voru sum hver alveg ótrúleg, en lokadagurinn í riðlakeppninni verður lengi í minnum hafður.

Noregur, sem aldrei áður hefur komist í undanúrslit á EM, tók sig til og vann fimm marka sigur á meistaraefnum Frakklands á sama tíma og Dagur Sigurðsson, með meiðslum hrjáð lið Þýskalands, lagði stjörnum prýtt lið Danmerkur undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar.

Króatar þurftu tíu marka sigur á heimamönnum frá Póllandi fyrir framan 14.000 æsta stuðningsmenn gestgjafanna. Þeir gerðu enn betur og unnu fjórtán marka sigur.

Eitt tíst frá handboltaáhugamanni dró lokadaginn ágætlega saman.

Bent Nyegaard, handboltasérfræðingur TV2 í Danmörku, sagði þetta einfaldlega skrítnasta dag á stórmóti sem hann hefur upplifað, en hann hefur farið á nokkur stórmótin.

„Þetta er það klikkaðasta sem ég hef séð. Ég hef farið á 30 stórmót og aldrei hef ég séð neitt eins og gerðist í gær [fyrradag],“ sagði Nyegaard í gær.

„Ekki bara tapaði Frakkland fyrir Noregi heldur vann Noregur sannfærandi sigur. Svo var það þessi magnaði sigur Króatíu á Póllandi. Maður situr hérna og hugsar að þetta átti ekki að geta gerst.“

Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska liðsins, var búinn að sleikja sárin eftir tapið gegn Þýskalandi þegar hann mætti í EM-stofuna hjá TV2 í gær og ræddi um þennan ótrúlega lokadag.

„Þetta er einn skrítnasti dagur sem ég hef upplifað á stórmóti. Þetta var eiginlega óraunverulegt. Það var mjög skrítið að horfa upp á þetta. Úrslitin sýna samt breiddina sem er komin í handboltann og hvernig íþróttin er að þróast,“ sagði Guðmundur Guðmundsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×