Viðskipti innlent

Fjármálalæsi Íslendinga fer batnandi

Sæunn Gísladóttir skrifar
Breki Karlsson, forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi, telur þörf á að leggja meiri áherslu á viðhorf í fjármálum í framtíðinni.
Breki Karlsson, forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi, telur þörf á að leggja meiri áherslu á viðhorf í fjármálum í framtíðinni.
Íslendingar hafa tekið framförum í fjármálalæsi og koma vel út ef miðað er við niðurstöður kannana í fjórtán OECD-ríkjum árið 2012. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar sem greint er frá í skýrslu um fjármálalæsi Íslendinga á vegum Stofnunar um fjármálalæsi og sálfræðisviðs viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík.

Þetta er í þriðja sinn sem fjármálalæsi Íslendinga er rannsakað á þennan hátt, en spurningalistar voru lagðir fram í desember árin 2008, 2011 og 2014. Árið 2014 skoruðu þátttakendur hærra að meðaltali í öllum þáttum fjármálalæsis, þekkingu, viðhorfum og hegðun. Meðaltal réttra svara í þekkingarhlutanum er 67 prósent nú, en var 47 prósent árið 2011. Þrjátíu prósent halda heimilisbókhald nú samanborið við 16 prósent árið 2011. Meðalhlutfall annarra OECD-ríkja er þó hærra, eða 44 prósent.

Fjármálalæsi er nú á námskrá grunnskóla. Fréttablaðið/Vilhelm
Breki Karlsson, forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi, telur að ákveðin vitundarvakning í þjóðfélaginu hafi valdið þessari þróun. „Fólk er miklu meira að fjalla um fjármál einstaklinga en áður. Þegar stofnunin um fjármálalæsi var stofnuð árið 2005 var orðið fjármálalæsi ekki til í íslenskri tungu,“ segir Breki. Margt hefur breyst síðan, árið 2011 var fjármálalæsi til að mynda komið inn í námskrá grunnskóla.  

„Þetta er ekki séríslenskt fyrirbæri. Ég er að vinna mikið með OECD og þar er mikil aukning í áhuga þjóðríkja á að efla fjármálalæsi fólks. En samkvæmt rannsóknum OECD ríkir meiri hagsæld og fólk veitir stjórnvöldum meira aðhald í þeim ríkjum þar sem fjármálalæsi er mikið,“ segir Breki.

Í rannsókninni skoruðu karlar, miðjualdurshóparnir, þátttakendur sem voru giftir eða í sambúð og þeir sem bjuggu á höfuðborgarsvæðinu að meðaltali marktækt hærra en aðrir í þekkingarhluta rannsóknarinnar. Ekki er þó samband milli þekkingar og hegðunar í fjármálum. Nokkuð jákvætt samband er milli viðhorfa og hegðunar í fjármálum. Því jákvæðari viðhorf þátttakenda, þeim mun jákvæðari hegðun sýndu þeir.

Breki telur því að í stað þess að leggja áherslu á þekkingaryfirfærslu, þurfum við að leggja áherslu á viðhorf. „Við þurfum í eigin fjármálum að hafa meiri fyrirhyggju og hugsa lengra fram í tímann en kannski til næstu mánaðamóta sem vill oft verða.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×