Skoðun

Afnemum einkaleyfi RÚV á menningarhlutverki þjóðarinnar

Sævar Freyr Þráinsson skrifar
Starfsemi RÚV skekkir verulega samkeppni á fjölmiðlamarkaði hér á landi. Flest einkarekin fjölmiðlafyrirtæki berjast í bökkum undir ægivaldi RÚV. RÚV fær árlegt forskot á aðra miðla að fjárhæð um 3,6 milljarðar í útvarpsgjaldi. Á auglýsingamarkaði tekur RÚV til sín u.þ.b. 1,8 milljarða. Þrátt fyrir þetta forskot fær RÚV ár eftir ár aukafjárframlög í ýmsu formi. Á sama tíma og RÚV er veitt skotleyfi á auglýsingamarkaði til að murka lífið úr öðrum fjölmiðlum hefur skattbyrði einkamiðlanna verið aukin með hækkun virðisaukaskatts sem nemur um 200 m.kr. fyrir 365 miðla á þessu ári, sem er merkilegt fyrir þær sakir að það er nálægt sérframlagi sem RÚV fékk í jólagjöf til að framleiða innlent efni á árinu 2016.

Nú vantar framtíðarsýn. Hvernig væri að láta Rás 2 í hendur dugmikilla starfsmanna? Það myndi auka samkeppni og draga úr afskiptum ríkisins á samkeppnismarkaði. RÚV á ekki að kosta meira en 1,5 milljarða á ári í stað 5,7 milljarða. Ég fullyrði að menningarhlutverki stofnunarinnar væri vel borgið með þeirri fjárhæð, m.a. til að halda uppi öflugri og vandaðri dagskrá á Rás 1, eins og verið hefur, sem óumdeilanlega er flaggskip RÚV. RÚV sem ríkisfyrirtæki á ekki að vera á auglýsingamarkaði. RÚV á ekki að hafa einkaleyfi á menningarhlutverki þjóðarinnar, þó vissulega eigi RÚV að sinna því.

Mín tillaga er sú að í stað þess að veita öllum þessum fjármunum til RÚV verði stofnaður sjóður, sem fengi til ráðstöfunar 4 milljarða á ári. Hlutverk hans væri að styðja við tónlist, sjónvarp, kvikmyndagerð, leikhús og aðra menningartengda starfsemi, sem myndi einnig nýtast í ljósvakamiðlum landsins. Allir sitji við sama borð og litróf íslenskrar menningar yrði fjölbreyttara. Margfeldisáhrif slíkrar stefnumörkunar yrðu gífurleg. Það myndi stuðla að bættum starfsskilyrðum íslenskra listamanna, fjölbreyttari afþreyingu og nýjar gjaldeyristekjur myndu verða til.




Skoðun

Sjá meira


×