Prestafélag Íslands styður frumvarp Pírata og Bjartrar framtíðar þess efnis að fella burt lög um helgidagafrið. Í umsögn stjórnar félagsins um frumvarpið segir að félagið taki undir þau rök flutningsmanna að lögin „eigi ekki við í nútíma samfélagi.“
RÚV greindi fyrst frá. Samkvæmt lögum um helgidagafrið getur það varðar sektum að standa að samkomum eða skemmtunum á helgidögum þjóðkirkjunnar.
Flutningsmenn frumvarpsins segja ekki ástæðu til að takmarka frelsi fólks með þessum hætti og gera jafnframt þá kröfu að það sé atvinnurekendum í sjálfsvald sett hvort þeir hafi opið á hátíðisdögum, í samráði við starfsmenn og í samræmi við ákvæði kjarasamninga.
„Stjórnin tekur undir rök flutningsmanna og telur að þessi lög eigi ekki við í nútíma samfélagi þar sem fólk aðhyllist mismunandi trúarbrögð og lífsskoðanir og vegna stóraukins straums ferðafólks,“ segir í umsögn Prestafélagsins. „Prestafélagið telur ekki eðlilegt að fólki sé refsað fyrir ákveðnar skemmtanir á helgidögum kristins fólks.“
Þá er í umsögninni bent á að upprunalegt markmið laganna hafi fyrst og fremst verið að standa vörð um frítíma fólks. Þar sem frítökuréttur og hvíldartími sé nú þegar tryggður í kjarasamningum og lögum um fjörutíu stunda vinnuviku, sé ekki lengur ástæða til að standa vörð um þessi lög.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, sagðist í viðtali við fréttastofu nýverið telja að lög um helgidagafrið séu af hinu góða. Gott sé að hafa löggjöf sem „styðji við og rammi inn“ líf landsmanna.
