Erlent

Óeinkennisklæddar siðferðislöggur herja á íbúa Teheran

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Teheran.
Frá Teheran. Vísir/AFP
Nýlega tilkynnti yfirmaður lögreglunnar í Teheran, höfuðborg Íran, að sjö þúsund lögregluþjónar í siðferðisdeild lögreglunnar vakti götur borgarinnar án einkennisbúninga. Yfirvöld segja að lögregluþjónarnir muni meðal annars sjá til þess að konur séu ekki áreittar, að ökumenn flauti ekki of mikið og að vélarhljóð bíla séu ekki of hávær. Þá hafa þeir í gegnum tíðina fjarlægt farða af konum sem þeir telja vera úr hófi.

Gagnrýnendur óttast þó að helsta verkefni þeirra sé að ganga úr skugga um að ströngum lögum um klæðnað, sem meðal annars fela í sér að konur hylji sig, sé fylgt eftir. Litið er á stofnun þessarar deildar sem lið í átökum fylkinga hófsamra og harðlínumanna í landinu.

Í nýlegum þingkosningum unnu hófsamar fylkingar gífurlegan sigur í borginni. Ný deild lögreglunnar var eingöngu sett á laggirnar þar og er það talið vera svar harðlínumanna við auknum réttindakröfum íbúa Teheran.

AP fréttaveitan segir að hingað til hafi það reynst tiltölulega einfalt að forðast að lenda í siðferðislöggunni. Þeir hafi ávallt klæðst hefðbundnum lögreglubúningum og staðið vaktina á fjölmennum torgum og gatnamótum.

Nú hafi hins vegar orðið breyting þar á.

Meðal þess sem lögreglan hefur gert er að gefa konum höfuðklúta, gefa munnlegar viðvaranir eða láta kvenkyns lögregluþjóna fjarlægja farða. Þar að auki hafa þeir sem brjóta gegn lögunum verið látnir borga sektir, eða jafnvel hafa fjölskyldur þeirra verið látnar skila skriflegu loforði um að viðkomandi myndi ekki fremja slík brot aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×