Lífið

Gunnar í Krossinum ætlar að sýna predikaranum hvar Davíð keypti ölið

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Gunnar Þorsteinsson hefur ritað Steven Anderson bréf.
Gunnar Þorsteinsson hefur ritað Steven Anderson bréf. Mynd/Anton/Skjáskot
Gunnar Þorsteinsson, oft kenndur við trúfélagið Krossinn, er ekki sammála predikaranum Steven Anderson sem lét Ísland og Íslendinga fá það óþvegið í predikun í baptistakirkjunni Faithful Word í Arisóna-ríki í Bandaríkjunum á dögunum. Gunnar hefur ritað honum bréf og ætlar Gunnar að eigin sögn að „gera honum grein fyrir því hvar Davíð keypti ölið.“

Myndband af predikuninni hefur vakið mikla athygli en þar kallar hann Ísland meðal annars „bastarðaþjóð“ og „femínistahelvíti.“ Gunnar Þorsteinsson ræddi við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni um predikunina og segist hann ekki vera sammála aðferðum Anderson.

„Þetta er náttúrulega ekki með þeim hætti sem við boðum fagnaðarerindið. Tölulega er þetta kannski rétt en útlagning er kolröng. Hér blómstrar ástin og verður oft til þess að kærleikurinn ber ávöxt,“ sagði Gunnar um þá fullyrðingu Anderson um að Ísland ætti heimsmet í barneignum utan hjónabands.

Sjá einnig: „Við þurfum að snúa aftur til siðferðis Biblíunnar svo að við verðum ekki bastarðaþjóð líkt og Ísland“

Aðspurður hver væri tilgangurinn í því að nýta sér Ísland í predikun í Arizona-ríki var Gunnar með svarið á reiðum höndum.

„Það sem hann gerir í raun er að nota okkur, saklausa Íslendinga, sem víti til varnaðar fyrir Bandaríkjamenn. Ef menn girði sig ekki í brók þá muni fara fyrir þeim eins og okkur, að þeir verði þjóð „bastarða“,“ segir Gunnar.

Gunnar segist hafa ritað prestinum bréf til þess að láta hann vita að hann væri orðinn frægur á Íslandi og á allt eins von að hann láti sjá sig hér á landi til þess að ítreka boðskap sinn. Gunnar hefur ekki enn fengið svar til baka en ætlar að halda áfram að reyna að ná sambandi við Anderson.

„Ég ætla að ná sambandi við hann og gera honum grein fyrir því hvar Davíð keypti ölið,“ segir Gunnar.

Hlusta má á viðtalið við Gunnar í heild sinni hér að ofan en hér að neðan sjá má predikun Anderson sem vakið hefur mikla athygli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×