Innlent

Lilja ræðir mannúðarmál á sex þúsund manna fundi í Istanbúl

Bjarki Ármannsson skrifar
Margir telja Lilju Alfreðsdóttur efni í formann en hún hefur ekki íhugað það.
Margir telja Lilju Alfreðsdóttur efni í formann en hún hefur ekki íhugað það. Fréttablaðið/Stefán Karlsson
Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra sækir á morgun leiðtogafund um mannúðarmál í Istanbúl í Tyrklandi. Undirbúningur fundarins hefur staðið yfir í þrjú ár en hann sækja um sex þúsund fulltrúar ríkisstjórna, stofnana og fyrirtækja.

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir að á leiðtogafundinum verði kallað eftir því að ríki heimsins lýsi yfir stuðningi við ákveðnar aðgerðir eða skuldbindingar sem miði að því að skila árangri á sviði mannúðar- og neyðaraðstoðar.

Angela Merkel Þýskalandskanslari er eini fulltrúi G7-samtakanna svokölluðu sem hefur boðað komu sína en Vladimír Pútin Rússlandsforseti hyggst sniðganga fundinn.

„Flóttamannavandinn nú er einhver sá mesti í sögunni og tugir milljóna manna eru á flótta vegna ófriðar í heimalandi sínu, náttúruhamfara, sárrar fátæktar eða áhrifa loftslagsbreytinga,“ er haft eftir Lilju í tilkynningunni.

„Það er mjög brýnt að þjóðir heims stilli saman sína strengi, rýni skipulag og þá aðferðafræði sem unnið er eftir með það að markmiði að ná betri árangri.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×