Hamilton sem var á ráspól missti Rosberg fram úr sér strax í ræsingu og lenti svo í samstuði við Valtteri Bottas á Williams. Rosberg hefur þá unnið báðar keppnir tímabilsins og leiðir heimsmeistarakeppni ökumanna. Rosberg var að vinna sína fimmtu keppni í röð.
Sebastian Vettel komst ekki af stað, vélin bilaði í Ferrari bílnum. Hamilton þarf að æfa ræsinguna betur, nú hefur hann tapað ráspólnum í tveimur keppnum í röð í ræsingunni. Rosberg stal fyrsta sætinu af liðsfélaga sínum.

Esteban Gutierrez á Haas bílnum datt úr keppni snemma, aðra keppnina í röð. Á meðan átti liðsfélagi Gutierrez frábæra keppni, Grosjean var fimmti á 20. hring og hélt áfram að sækja á næstu menn.
Grosjean náði fjórða sæti á 24. hring, þegar hann tók fram úr Daniel Ricciardo. Magnaður árangur hjá nýja liðinu í Formúlu 1. Hann tapaði svo sætinu aftur til Ricciardo í gegnum þjónustuhlé.
Hamilton og Raikkonen settu ofurmjúku dekkin undir til að reyna að ná Rosberg. Raikkonen kom svo inn ellefu hringjum seinna til að taka síðustu nýju dekkin undir. Hann fékk þá mjúk dekk. Rosberg svaraði og hélt sér á undan Raikkonen. Hamilton fylgdi svo í kjölfarið yfir á mjúk dekk.
Baráttan um fyrsta sætið var á milli Rosberg og Raikkonen. Bilið var tæpra fimm sekúndur þegar 13 hringir voru eftir.
Raikkonen náði aðeins að minnka bilið í Rosberg en keppnin dugði ekki til fyrir Finnann til að ná Rosberg.
Hér fyrir neðan má sjá gagnvirkt brautarkort með öllum úrslitum helgarinnar.