Skoðun

Það Guð, hún Guð, hann Guð

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson skrifar
Í Þýskalandi hafa verið uppi áform um að kynjafna tungumálið. Slíkt ráðabrugg hefir nokkuð lengi átt upp á pallborðið meðal þarlendisfólks. Til dæmis þykir tilhlýðilegt að karlkynsorð sem allajafna eru brúkuð í ávarpi megi einnig nota í kvenkyni eða þá að notast sé við hvorugkynsorð sem gera eiga báðum kynjum jafnt undir höfði.

Fyrir nokkru var að finna skrif í Der Spiegel sem fjallaði um téð þema. Báru skrifin hið skemmtilega heiti „Sein Name ist Sie“ (Nafn hans er hún) og vísar til hins heilaga rits þar sem hlutskipti kvenfólks hefir löngum verið bágborið hlutfallslega séð. Í umræddu lesmáli var greint frá félagasamtökum sem voru í vandræðum með hvernig ávarpa ætti félagsfólk sitt í fréttabréfi án þess að hygla öðru kyninu. Taldi forsvarsfólk samtakanna sig hafa fundið rétta orðið með hvorugkynsorðinu „Mitglied“. Ekkert félagssystkinanna hefði átt að geta sett sig upp á móti því.

Það gekk ekki eftir. „Mitglied þótti minna helst til of mikið á orðið „Glied“ sem getur merkt karlkyns æxlunarfæri. „Glied“ þýðir limur og „Mitglied“ meðlimur. Slíkt þótti ótækt og dúkkuðu í kjölfarið upp allslags kvenlegri orð sem hefði mátt brúka. Þar á meðal mátti finna „Ohneglied“ (ánlimur) og „Mitklit“ (meðsnípur). Hljómar það siðarnefnda ekki ósvipað og „Mitglied.“

Sama vandamál væri í íslenskunni. Fyrir utan að limur er karlkynsorð. En eftir því sem best er vitað veldur téð orð engu brambolti á meðal kynjajöfnunarfólks á Íslandi þótt áform hafi verið uppi að breyta tungumálinu og gera það kvensamlegra.

Þýskaland er komið öllu lengra í breytingarferlinu og er gerlegt að kvengera flestöll starfsheiti með að hengja -in á hlutaðeigandi orð. Þannig verður „Verkäufer“ (sölumaður) að „Verkäuferin“ (sölukona) og „Maurer“ (múrari) að „Maurerin“ (þar höfum við ekki enn þá tækifæri á að kvengera orðið en máski mætti notast við múrynja eða múrína). Þegar talað er um fleira fólk innan umrædds umhverfis er svo hægt að hengja -innen á stofn orðsins: Verkäuferinnen (sölukonur), Maurerinnen (múraraynjur eða múrínur).

Í mörg horn að líta

Auðvitað er í mörg horn að líta þegar áform eru uppi um að ráðast í umskipti tungumáls með það augnamið að rétta hið kvenlega hlutskipti málfræðilega séð. Til dæmis er karlkyn eintölu óákveðinna fornafna brúkað sé kyn þess sem um ræðir óljóst. Er málum einnig svo farið hvað íslenskt mál varðar.

Sagt er:

„Kom einhver/enginn/nokkur áðan.“ Hér mætti hugsanlega notast við hvorugkyn og segja: „kom eitthvert/ekkert/nokkurt“ eða þá bæði kyn í fleirtölu „komu einhverjir-einhverjar/engir-engar/nokkrir-nokkrar

Þessu hefir ekki enn þá verið snúið til hvorugkyns eða beggja kynja. Gildir það um bæði löndin. En ólíkt því sem algengt er í Þýskalandi þegar blandað kompaní er ávarpað þá hefir slíkt ekki fest sig á Íslandi að ávarpa beri starfsfólk eða annað fólk bæði í kvenkyni og karlkyni. Væri því sölufólk ávarpað í riti og orði: „Ágætu sölukonur, ágætu sölumenn (vanalega er byrjað á kvenkynsorð) ef þýskt form yrði innleitt heima.

Í Þýskalandi hefir og verið leitast við að koma á umskiptum tungumálsins. Umskiptum sem kannski verður fjallað um síðar. Um margt er augnamið þessara umskipta að breyta samfélagslegum valdahlutföllum í málkerfinu svo koma megi á kynjalegu jafnvægi. Sjaldan kemur til tals, þegar talið beinist að þessu tiltekna þema, að hugsanlega væri árangursríkara ef samfélagið breytist fyrst. Þá myndi það hugsanlega hafa áhrif á málkerfið og kynjafna.

Hvað sem því líður mætti e.t.v. stuðla að því að finna öllum starfsheitum kvenkyns form (þar sem -maður og -kona koma ekki fyrir) líkt og í Þýskalandi: Forseti, forsetína, kanslari, kanslarína, ritari, ritarína o.s.frv. Eða lætur -ynja betur í eyru?

Þar mætti máski byrja sem og með umferðarljósin og umferðarskiltin. Þar má klárlega jafna hlutskipti kvenfólks. Og svo ættum við auðvitað að tala um það Guð, hana Guð og hann Guð.




Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×