Skoðun

Ég er of óþroskaður

Baldur V. Karlsson skrifar
Nú hafa nokkrir forsetaframbjóðendur stigið fram í dagsljósið. Hins vegar leitar hugur minn ekki til þeirra heldur til fólksins í skuggunum sem stendur heima í stofu og ber í sig kjark til að bjóða sig fram sem næsti forseti Íslands. Ef ég væri átta árum eldri og ekki svona óþroskaður myndi ég skella mér í baráttuna. Þegar ég segi óþroskaður meina ég að ég á enn eftir að þróa með mér þann hnarreista virðuleika sem þarf í forsetaembættið. Ég er ekki með grásprengt hár, nota of mörg milliorð í talmáli, gleymi stundum því sem ég ætla að segja, er klaufskur með hnífapör og finnst bjórinn helst til of góður. En þetta er allt á réttri leið.Burt séð frá þroska þá verð ég 37 ára þann 15. apríl næstkomandi og mér finnst ég hreinlega of ungur til verða forseti. Þó ég væri nógu þroskaður, sem margir á mínum aldri eru, og myndi vilja taka Ólaf Ragnar á þetta, þá væri ég kominn á eftirlaun 57 ára. Hvað ætti ég þá að gera? Nei, ég á enn eftir að sanka að mér lífsreynslu í tonnatali áður en ég svo mikið sem íhuga að hlekkja mig við Bessastaði.Margir eru að hugsa um þetta sem er hið besta mál enda tel ég það skyldu allra góðra manna og kvenna sem aldur hafa til að allavega ímynda sér að gegna þessu embætti. Ég tel að í kjölfar Vigdísar og svo Ólafs hafi forsetaembættið orðið raunverulega mikilvægt. Ég vona að við förum ekki að kjósa yfir okkur uppsprengda skrautfjöður með ekkert bein í nefinu eða hreinlega einhvern kjána. Ég vona að næsti forseti verði manneskja sem hefur hugrekki og vit á milli eyrnanna. Vit til að hugsa um hag heildarinnar og þor til að verða taumhald þingheims. Manneskjan sem ég ætla að kjósa er ekki komin fram í dagsljósið. Ég hef aldrei séð hana en ég veit hún leynist í skuggunum. Ef hún stígur ekki fram held ég að ég kjósi bara Ástþór. Hann hefur allavega reynst staðfastur í ósk sinni um Bessastaði. Og svo sjáumst við kannski bara að átta árum liðnum.

Tengd skjöl
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.