Flóttinn frá karlaliði Fram í handbolta heldur áfram en nú hefur markvörðurinn Kristófer Fannar Guðmundsson samið við Aftureldingu. Þetta kemur fram á Mosfellingur.is.
Kristófer, sem er 25 ára, er uppalinn í Mosfellsbænum en hefur undanfarin fjögur ár leikið með ÍR og Fram.
Kristófer mun verja mark Aftureldingar á næsta tímabili ásamt Davíð Svanssyni en reynsluboltinn Pálmar Pétursson er búinn að leggja skóna á hilluna.
Mikið hefur kvarnast úr liði Fram eftir að tímabilinu lauk en flestir lykilmanna þess eru horfnir á braut. Þá urðu þjálfaraskipti í Safamýrinni þegar Reynir Þór Reynisson tók við af Guðlaugi Arnarssyni sem hætti eftir þriggja ára starf.
Afturelding endaði í 3. sæti Olís-deildarinnar í vetur og komst alla leið í lokaúrslit þar sem liðið tapaði 3-2 fyrir Haukum.
Flóttinn frá Fram heldur áfram
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
