Innlent

Unnið að því að gera smáheimili að raunhæfum valkosti

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Sandra Borg Bjarnadóttir býr í foreldrahúsum ásamt kærasta sínum og sér hvorki fram á að geta farið út á leigu né fasteignamarkað í bráð. Hún hófst því handa við að leita nýrra lausna og stofnaði í kjölfarið Facebook-hópinn Tiny Homes á Íslandi.
Sandra Borg Bjarnadóttir býr í foreldrahúsum ásamt kærasta sínum og sér hvorki fram á að geta farið út á leigu né fasteignamarkað í bráð. Hún hófst því handa við að leita nýrra lausna og stofnaði í kjölfarið Facebook-hópinn Tiny Homes á Íslandi. Vísir/Nanna
Auka þarf fjölbreytni og valfrelsi fólks hvað varðar búsetuform og líta á smáheimili, eða míkróhús, sem raunhæfan valkost. Þetta segir formaður nýstofnaðs félags um smáheimili. Hún segir mikinn áhuga á málefninu og að ungt fólk vilji upp til hópa búa minna og hafa meira á milli handana.

Ljóst er að vaxandi áhugi er á svokölluðum smáheimilum eða míkróhúsum um heim allan. Sandra Borg Bjarnadóttir býr í foreldrahúsum ásamt kærasta sínum og sér hvorki fram á að geta farið út á leigu né fasteignamarkað í bráð. Hún hófst því handa við að leita nýrra lausna og stofnaði í kjölfarið Facebook-hópinn Tiny Homes á Íslandi. Nú ári síðar eru meðlimir hópsins orðnir hátt í þrjú þúsund. 

„Við höfum mikið verið að reyna að skilgreina smáheimili því fólk er oft að spyrja um fermetrafjölda og svoleiðis. Við höfum eiginlega komist að þeirri niðurstöðu að það er eiginlega bara lítið hús sem passar við stærð fjölskyldunnar sem býr í því. Sex manna fjölskylda passar til dæmis ekki inn í fjörtíu fermetra. En grunnurinn er í raun bara að skipuleggja rýmið vel, nýta hvern fermetra og vera ekki að eyða plássi í óþarfa. Þú bara finnur út hvað þú þarft í húsið þitt og byggir það út frá þínum þörfum, “ segir Sandra. 

Í vikunni voru formlega stofnuð Hagsmunasamtök áhugafólks um smáheimili. Var það meðal annars gert vegna þess að í dag er í raun ekki mögulegt að byggja smáhús á Íslandi þar sem ekki er gert ráð fyrir þessari tegund húsa í deiliskipulögum sveitarfélaga og byggingarreglugerðum.

„Ástæðan fyrir því að við stofnuðum félagið er að það þarf að breyta allskonar hlutum sem einn einstaklingur getur ekki breytt. Við þurfum að standa saman til að ná þessu áfram. Til þess að gera þetta að möguleika á Íslandi.“ 

Sandra segir ljóst að ungt fólk í dag geri aðrar kröfur til íbúðahúsnæðis en kynslóðirnar á undan. Það vilji síður skuldsetja sig og hafa meira fjárhagslegt svigrúm. Markaðurinn hafi aftur á móti ekki brugðist við þessari þróun

„Allavega ég og mínir vinir viljum lítið hús og borga minna af því. Eyða bara minni pening svona almennt í eitthvað sem tengist húsnæði og dóti almennt. Við sjáum þetta sem góða lausn á því,“ segir hún. 

Samtökin vilja að smáheimili verði raunhæfur valkostur í framtiðinni. „Við viljum það. Ef það er ekki þá bara gerum við hann raunhæfan.“ 


Tengdar fréttir

Byggja fyrsta míkróhúsið á Íslandi

Ungt par í Grindavík vinnur nú að því að breyta gömlum vatnstanki í bænum í þriggja hæða einbýlishús. Þannig ætla þau að byggja fyrsta svokallaða míkróhús landsins. Þau hvetja Íslendinga til að hugsa út fyrir kassann þegar kemur að húsnæðismálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×