Undanúrslit Powerade-bikars karla í körfubolta fara fram í kvöld en þar mætast annars vegar Þór Þorlákshöfn og Keflavík og hins vegar Grindavík og KR.
Það er talsverður munur á bikarreynslu þessara félaga. KR, Keflavík og Grindavík hafa verið fastagestir í Laugardalshöllinni undanfarna áratugi og unnið bikarmeistaratitilinn samtals 21 sinni.
Þórsarar búa ekki yfir sömu bikarreynslu en þeir hafa aldrei komist í bikarúrslit. Þór hefur raunar aðeins einu sinni áður verið í þessari stöðu, að eiga möguleika á að komast í bikarúrslit. Það var fyrir tveimur árum þegar Þórsarar mættu Grindvíkingum í undanúrslitunum og biðu lægri hlut, 93-84.
Þórsarar unnu sterkan sigur á Haukum, 79-74, í átta-liða úrslitunum en þeirra bíður erfitt verkefni í kvöld gegn toppliði Domino's deildarinnar. Keflavík varð síðast bikarmeistari árið 2012 en það er síðasti stóri titillinn sem þjálfari liðsins, Sigurður Ingimundarson, vann. Kollegi hans hjá Þór, Einar Árni Jóhannsson, hefur einu sinni hrósað sigri í bikarkeppninni, árið 2005 þegar hann þjálfaði Njarðvík.
Grindavík og KR þekkja það ágætlega að mætast í undanúrslitum bikarkeppninnar en þau mættust einnig á þessum tímapunkti í keppninni árin 1991, 1997 og 2009. Sigur á Grindavík hefur þó ekki verið ávísun á bikarmeistaratitil hjá KR. Vesturbæingar urðu bikarmeistarar 1991 eftir sigur á Grindavík í undanúrslitunum en töpuðu í bikarúrslitum 1997 og 2009.
Gengi Grindvíkinga í vetur hefur ekki verið gott en þeir eru samt sem áður aðeins tveimur sigrum frá bikarmeistaratitlinum sem liðið hefur unnið fimm sinnum áður.
Komast Þórsarar í fyrsta sinn í Höllina?
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar

Mest lesið



Crystal Palace bikarmeistari í fyrsta sinn
Enski boltinn


Gleymdu búningum svo bæði liðin eru merkt Stjörnunni
Íslenski boltinn



„Orðið sem ég nota er forréttindapési“
Handbolti


Uppgjörið: Þróttur - FH 4-1 | Sjóðheitir Þróttarar völtuðu yfir FH
Íslenski boltinn