Handbolti

Norska skyttan O'Sullivan hefði getað valið breska handboltalandsliðið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
O'Sullivan í leik með norska landsliðinu.
O'Sullivan í leik með norska landsliðinu. Vísir/Getty
Christian O'Sullivan átti stórleik þegar Noregur vann Hvíta-Rússland á EM í Póllandi í gær og tryggði sér þar með sæti í milliriðlakeppninni.

Það sem meira er þá fer Noregur þangað með fjögur stig en það varð ljóst eftir að Ísland tapaði fyrir Króatíu í gærkvöldi.

Sjá einnig: Gjaldþrotið gegn Króötum setur framtíð landsliðsins í uppnám

O'Sullivan skoraði tíu mörk fyrir Noreg í riðlakeppninni og var með betri leikmönnum liðsins gegn Hvíta-Rússlandi í gær.

Eins og nafn hans gefur til kynna á hann ættir að rekja til Bretlands. Afi hans og amma í föðurætt eru frá Englandi og er hann því líka með breskt ríkisfang.

Honum stóð til boða að spila með breska landsliðinu á Ólympíuleikunum í Lundúnum árið 2012 og viðurkennir hann að boðið hafi verið afar freistandi.

„En hjarta mitt tilheyrir Noregi,“ sagði hann við norska fjölmiðla. „Ég hefði getað sagt já á sínum tíma en samt getað spilað með Noregi á EM í Póllandi ef ég hefði hætt að spila með Bretlandi strax eftir Ólympíuleikana.“

„En þá hefði ég ekkert mátt spila með landsliðinu í þrjú ár og biðin var of löng. Ég er afar glaður með að ég valdi Noreg.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×