Innlent

Þróa meðferð fyrir slasaða hermenn Bandaríkjahers

Svavar Hávarðsson skrifar
Meðferð við skot- og sprengjuáverkum er viðfangsefni Kerecis.
Meðferð við skot- og sprengjuáverkum er viðfangsefni Kerecis. nordicphotos/afp
Ísfirska lækningavörufyrirtækið Kerecis hefur gert þróunarsamning við Rannsóknamiðstöð bandaríska sjóhersins (ONR) um að nýta vefjaviðgerðarefni fyrirtækisins úr þorskroði til meðhöndlunar á bráðaáverkum á alvarlega slösuðum hermönnum. Helst er um skot- og sprengjuáverka að ræða.

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Kerecis, segir upphæð samningsins vera trúnaðarmál en ONR hafi tæpa tvo milljarða króna til ráðstöfunar fyrir verkefnið.

„Samningurinn er einnig háður því að Kerecis nái að sýna fram á ákveðin vísindaleg markmið en að því gefnu að við náum þeim markmiðum sem stefnt er að mun samningurinn færa fyrirtækinu verulegar tekjur á næstu árum,“ segir Guðmundur. Hann bætir við að öll vinna við verkefnið fari fram hjá Kerecis á Íslandi og hjá íslenskum og erlendum samstarfsaðilum.

Hingað til hafa sárarannsóknir Kerecis aðallega snúið að sárum vegna sykursýki og öðrum þrálátum sárum sem eru alvarlegt heilbrigðisvandamál um heim allan. Með samningnum við ONR útvíkkar Kerecis rannsóknasvið sitt og vöruþróun yfir í úrræði til að meðhöndla bráðaáverka.

Annar samningurinn við bandarísk varnarmálayfirvöld

Baldur Tumi Baldursson, húðlæknir og læknisfræðilegur stjórnandi Kerecis, segir að undanfarin fimm ár hafi fyrirtækið byggt upp sterkan vísindalegan grunn fyrir sárameðhöndlunartækni fyrirtækisins þar sem einblínt hefur verið á meðhöndlun á þrálátum sárum, ekki síst vegna sykursýki.

„Þetta verkefni útvíkkar þennan vísindalega grunn yfir í bráðasár með það að markmiði að fækka dauðsföllum vegna slíkra áverka,“ segir Baldur Tumi.

Samningurinn sem nú er í hendi er annar samningurinn sem Kerecis gerir við bandarísk varnarmálayfirvöld en í fyrrahaust gerði fyrirtækið smærri samning við Sárarannsóknasetur bandaríska landhersins (INR). Sá samningur snýst um rannsóknir á tækni Kerecis til að meðhöndla alvarleg brunasár.

Kerecis stefnir á að útvíkka enn samstarfið við bandarísk varnarmálayfirvöld á næstu misserum, en skrifstofa Kerecis í Washington DC, sem var opnuð fyrr á þessu ári, er liður í þeim áætlunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×