Innlent

Bensínið of dýrt fyrir flugfélag

Ingólfur Eiríksson skrifar
Þór Ragnarsson
Þór Ragnarsson
„Þetta gerir okkur náttúrlega erfitt fyrir. Það er erfitt að fá flugfélög til að lenda hérna þegar eldsneytið er svona dýrt,“ segir Þór Ragnarsson hjá Ferðaskrifstofu Austurlands.

Atvinnu- og menningarnefnd Fljótsdalshéraðs krafðist þess á fundi sínum í fyrradag að verð á flugvélaeldsneyti verði það sama um allt land.

„Eins og staðan er nú er þar verulegur munur á og samkeppnishamlandi fyrir Egilsstaðaflugvöll,“ segir nefndin.

Þór og Hannibal Guðmundsson frá Ferðaskrifstofu Austurlands mættu á fund atvinnunefndarinnar og kynntu hugmyndir sínar um nýtingu Egilsstaðaflugvallar.

„Það er allt að 35 til 40 prósent dýrara að fylla á vélina hérna. Þetta gerir það að verkum að við getum til dæmis ekki stofnað flugfélag,“ útskýrir Þór.

„Dýrasta flugvélaeldsneytið er á Egilsstöðum, þar sem það er ekki flutningsjafnað,“ segir Guðmundur Sveinsson Kröyer, formaður Atvinnunefndarinnar.

„Það er sama verð á eldsneyti fyrir bíla um allt land, en því er ekki að heilsa með flugvélaeldsneyti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×