Innlent

Menntskælingar halda hinseginviku í fyrsta sinn

Ingólfur Eiríksson skrifar
Adda Guðrún Gylfadóttir segir að hinsegin vikunni hafi verið gríðarvel tekið.
Adda Guðrún Gylfadóttir segir að hinsegin vikunni hafi verið gríðarvel tekið.
„Upphaflega átti félagið aðallega að standa að því að búa til umræðuhóp og stofna undirfélag fyrir nemendafélögin. Síðan eftir að hafa hist í fyrsta skipti ákváðum við að halda Pride-viku,“ segir Adda Guðrún Gylfadóttir stjórnarmeðlimur í Catamitus, hinseginfélagi Menntaskólans í Reykjavík.

Adda er einn skipuleggjenda hinseginviku sem haldin er í fyrsta skipti í MR um þessar mundir.

„Dagskráin er afar fjölbreytt og inniheldur fræðslu og fyrirlestra í bland við skemmtilega viðburði,“ segir Adda.

Hún nefnir að í samstarfi við Verzlunarskóla Íslands verði haldin sameiginleg fræðsla fyrir foreldra og starfsfólk skólanna í Bláa sal Verzlunarskólans á fimmtudagskvöldið.

„Svo vonum við að aðrir skólar taki sér þetta til fyrirmyndar, stofni sín félög og haldi svipaðar vikur. Við erum öll mjög spennt að sjá hvernig þetta fer og erum viss um þetta muni bara stækka á milli ára,“ segir Adda.

Þess má geta að Femínistafélag MR hélt fyrstu kvenréttindaviku sína í síðustu viku þar sem Vigdís Finnbogadóttir ræddi við nemendur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×