Fótbolti

Real missteig sig gegn Valencia

Anton Ingi Leifsson skrifar
Leikmenn Valencia fagna marki.
Leikmenn Valencia fagna marki. vísir/getty
Real Madrid gerði 2-2 jafntefli við Valencia í spænsku úrvalsdeildinni á knattspyrnu og varð því af mjög mikilvægum stigum í toppbaráttunni.

Francisco Alcacer kom Valencia yfir eftir tuttugu mínútna leik og Javi Fuego tvöfaldaði forystuna sex mínútum síðar. Cristiano Ronaldo fékk gullið tækifæri til að minnka muninn fyrir hlé, en honum brást bogalistinn á vítapunktinum.

Staðan var 0-2 í hálfleik fyrir gestunum frá Valencia, en Pepe minnkaði muninn á 56. mínútu. Isco jafnaði svo metin sex mínútum fyrir leikslok, en þeir náðu ekki að skora sigurmark. Lokatölur 2-2.

Barcelona er því með fjögurra stiga forystu þegar tveir leikir eru eftir af tímabilinu, en Real Madrid er með 86 og Barcelona 90.

Barcelona á eftir að spila við Atletico Madrid á útivelli og Deportivo á heimavelli, en Real á eftir að mæta Espanyol á útivelli og Getafe á heimavelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×