Þrír voru fluttir á fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað eftir harðan árekstur tveggja bíla við Eskifjörð, nánar tiltekið í Krók á þjóðvegi 92, í morgun. Fólksbíll og pallbíll skullu saman en bílunum var ekið úr gagnstæðri átt.
Þrír voru í fólksbílnum og tveir í pallbílnum. Notast þurfti við klippur til að ná fólki úr fólksbílnum. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Austurlandi varð áreksturinn um klukkan átta í morgun en fólk var á leið til vinnu. Var töluverð hálka á veginum.
Ekki fengust upplýsingar frá fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað um líðan hinna þriggja. Hinir tveir voru fluttir á Heilsugæsluna á Eskifirði.
Alvarlegt bílslys á Eskifirði
Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
