Innlent

Rafknúna hvalskoðunarskipið Opal tekið í notkun

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hvalskoðunarskipið Ópal
Hvalskoðunarskipið Ópal mynd/aðsend
Rafknúið skip fer í fyrsta skipti í hvalaskoðunarferð hér við land í dag. Um er að ræða seglskipið Opal en ferð skipsins er talin marka tímamót í sögu vistvænna samgangna hér á landi.  Á meðal boðsgesta í fyrstu ferð Opal um Skjálfanda verður Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.

Nýr skrúfubúnaður sem þróaður var sérstaklega fyrir Opal hefur þá sérstöðu að hægt er að hlaða rafgeyma skipsins undir seglum.

Að jafnaði verða rafgeymarnir hlaðnir þegar skipið kemur til hafnar með umhverfisvænni orku af orkukerfi landsins. Í hvalaskoðunarferðum mun rafmótorinn knýja skrúfubúnaðinn en þegar skipið siglir fyrir seglum er hægt að breyta skurði skrúfublaðanna og nýta búnaðinn til að hlaða rafmagni inn á geyma skipsins.

Þetta er í fyrsta skipti sem slík tækni er nýtt um borð í skipi. Í framhaldi af fyrstu hvalaskoðunarferð Opal um Skjálfanda er gert ráð fyrir að skipið fari í leiðangur til austurstrandar Grænlands.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ávarpaði gesti í dag.Mynd/aðsend
Ferðþjónusta í óbyggðum færð á nýtt stig

Jonas Granath framkvæmdastjóri hjá Caterpillar Propulsion í Svíðþjóð segir í tilkynningu að það hafi vissulega verið áskorun að þróa skrúfubúnað fyrir seglskip sem sé um leið túrbína sem hleður rafmagni á geyma skipsins . „Takmarkið var að ná hámarksnýtni úr lágmarks orku svo hægt væri að kynna  til sögunnar „Hið raunverulega umhverfisvæna skip“ án koltvísýringslosunar. Hvalaskoðunarsigling án nokkurrar mengunar, í algjörri þögn og í mikilli nálægð við þessi villtu dýr hlýtur að vera einstæð reynsla. Við erum stoltir að hafa átt þátt í að gera hana mögulega,“ segir Jonas Granath.



Stór viðburður

Jón Björn Skúlason framkvæmdastjóri Íslenskrar NýOrku segir að erlendis sé vel fylgst með þróunarstarfi Norðursiglingar á Húsavík.  „Í þessu verkefni er verið að nýta tækni frá mörgum ólíkum aðilum og púsla henni saman í nýjung sem enginn hefur áður séð.  Ég tel þetta einn stærsta viðburð í nýtingu vistvænnar orku sem átt hefur sér stað hér á landi í langan tíma,“ segir Jón Björn Skúlason. Stærstu hluthafar Íslenskrar NýOrku eru íslenska ríkið, Orkuveita Reykjavíkur, Landsvirkjun og HS Orka.

Nýsköpunarverkefni

„Við erum stolt af þátttöku okkar í þessu nýsköpunarverkefni,“ segir Frederic Hauge, stofnandi og forstjóri Bellona Foundation. „Við teljum að drifbúnaðurinn. sem hefur verið þróaður henti mjög vel, jafnt í nýjum sem eldri skipum. Við höfum lengi látið okkur umhverfismál og málefni norðurslóða miklu varða. Í okkar huga er mikilvægt að skip, sem sigla um heimsskautaslóðir, geti í náinni framtíð ferðast þar um án þess að skilja eftir sig kolefnisspor,“ segir Hauge. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×