Innlent

Helmingur landsmanna andvígur inngöngu í ESB

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar ESB.
Höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar ESB. Fréttablaðið/Þorgils
Helmingur landsmanna er andvígur inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Þetta eru niðurstöður skoðunarkönnunar sem Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissina í Evrópumálum, lét Gallup gera fyrir sig dagana 16. til 27. júlí sl.

50,1% landsmanna eru andvíg inngöngu Íslands í ESB, 34,2% eru fylgjandi og 15,6% eru hvorki fylgjandi né andvígir inngöngu. Í úrtaki könnunarinnar voru 1482 manns af landinu öllu, 18 ára og eldri. Fjöldi svarenda var 825 eða 55,7%.

Spurt var hvort viðkomandi væri hlynntur eða andvígur inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Ef eingöngu er tekið mið af þeim svarendum sem eru annað hvort hlynntir eða andvígir inngöngu Íslands í Evrópusambandið voru 59,4% andvíg aðild að ESB og 40,6% hlynnt aðild.

Andstaða við aðild að ESB er mest hjá þeim sem myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn eða Framsóknarflokkinn. 83% af þeim sem myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn og 95% af þeim sem myndu kjósa Framsóknarflokkinn eru andvíg inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

Stuðningur við inngöngu er mestur hjá þeim sem myndu kjósa Samfylkinguna eða Bjarta framtíð. 78% þeirra sem myndu kjósa Samfylkinguna og 66% af þeim sem myndu kjósa Bjarta framtíð eru hlynnt inngöngu Íslands í Evrópusambandið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×