Lífið

Eflaust ekki einsdæmi en skemmtilegt

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Anna Kristín Pálsdóttir heldur hér á prófskírteininu í spjaldtölvunni.
Anna Kristín Pálsdóttir heldur hér á prófskírteininu í spjaldtölvunni. Vísir/Vilhelm
Fréttakonan og verkfræðingurinn Anna Kristín Pálsdóttir gerði sér lítið fyrir og nældi sér í tíu í einkunn fyrir mastersritgerðina sína í framleiðsluverkfræði við Tækniháskólann í Berlín.

„Ég fékk A sem er það sama og tíu hér á landi. Ég er auðvitað mjög ánægð en það var mikil vinna á bak við þetta meistaraverkefni,“ segir Anna Kristín alsæl með einkunnina.

Hún segir þó að einkunnin hafi komið sér á óvart, enda ekki sjálfgefið að fá tíu fyrir mastersritgerð. „Auðvitað kom þetta á óvart. Þetta er eflaust ekki einsdæmi í þessu námi en var mjög skemmtilegt, sérstaklega eftir að hafa legið lengi yfir þessu verkefni,“ bætir Anna Kristín við létt í lund.

Ritgerðin fjallar um gæðastjórnun í matvælaiðnaði, þar sem Anna Kristín fer yfir mögulegar aðferðir til að bæta gæðastjórnun og auka gæði í framleiðslu.

Hún kláraði grunnnám í verkfræði í Háskólanum í Reykjavík en tók svo þriggja ára pásu og hóf störf sem fréttamaður. „Ég bjó í Berlín í tvö ár á meðan á náminu stóð og kunni rosalega vel við mig þar. Mér finnst verkfræðin nýtast vel í fréttamannsstarfinu, á hverjum degi þarf maður að fara yfir mikið af gögnum og tileinka sér nákvæm vinnubrögð og svona.“

Í Berlín fór hún einnig í starfsnám hjá bílaframleiðandanum Volkswagen. „Ég var að vinna hjá Volkswagen í hálft ár. Þetta var starfsnám í gæða- og straum­línustjórnun. Ég var í rauninni að fylgjast með bílunum verða til á færibandinu og mitt verkefni var að fylgjast með þeim aðferðum sem voru notaðar og reyna að koma með tillögur að bættum vinnuaðferðum,“ útskýrir Anna Kristín.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×