Innlent

Kveðja bankann með blómum og krönsum

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Á fimmtudag lokar útibú Landsbankans í Bolungarvík, bæjarbúir eru reiðir ákvörðuninni.
Á fimmtudag lokar útibú Landsbankans í Bolungarvík, bæjarbúir eru reiðir ákvörðuninni. Visir/Pjetur
„Hvert höggið af öðru ríður yfir bæjarfélagið, þetta er ömurleg staða sem við bæjarbúar erum í. Það kom okkur verulega á óvart hversu skammur tími leið frá því að samruni Sparisjóðs og Landsbanka er samþykktur og að ákvörðun er tekin um að loka útibúinu,“ segir Matthildur Guðmundsdóttir sem hefur starfað í Sparisjóð Bolungarvíkur í fjórtán ár.

Á annan tug starfa úr Bolungarvík

Á föstudag tilkynnti Landsbankinn að útibú bankans á Suðureyri, Þingeyri og Bolungarvík verði lögð niður innan viku, ellefu manns missa atvinnuna. Með tilfærslu starfa við sameiningu sýslumannsembætta og nú með lokun útibús Landsbankans er ljóst að á annan tug starfa hafa verið flutt úr bæjarfélaginu á nokkrum mánuðum.

Matthildur Guðmundsdóttir starfsmaður Landsbankans í Bolungarvík
Bitnar helst á eldra fólki

„Ég tel að lokunin hafi mikil áhrif á bæjarfélagið. Við búum hérna 900 manns og þurfum eftir þetta að sækja alla bankaþjónustu á Ísafjörð, þangað eru ekki traustar samgöngur og auðvitað enginn strætó.“

Matthildur segir aðgerðirnar bitna mest á eldra fólki sem á að auki erfitt með að sækja ýmsa nauðsynlega þjónustu. „Þetta er enn eitt höggið, það kemur til dæmis ekki læknir hingað nema einu sinni eða tvisvar í viku og er þá fáeinar klukkustundir í senn. Sýslumannsembættið var flutt á Ísafjörð um áramótin, þá fóru nokkrir starfsmenn þangað.“

Ríkið finni störf handa bæjarbúum

Bæjarráð Bolungarvíkur ályktaði um málið í dag og vill að ríkið finni störf handa bæjarbúum. „Í ljósi þess að ríkið er eigandi Landsbankans og starfsemi sýslumanns er á vegum ríkisins gerir bæjarráð Bolungarvíkur kröfu um að starfsemi á vegum ríkisins verði fundinn staður í Bolungarvík,“ segir í bókun ráðsins.

Blóm og kransar

Bæjarbúar ætla að mótmæla lokun bankans á fimmtudag á táknrænan máta með krönsum og blómum rétt eins og um jarðarför væri að ræða. Þeir hafa margir lýst óánægju sinni með lokun útibúsins og sumir hætt viðskiptum við Landsbankann.

Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, staðfestir þetta og segist skilja reiði bæjarbúa. „Það er aldrei vinsælt að loka útibúum, það hafa einhverjir hætt í viðskiptum við okkur, innan við tíu manns og aðrir sagst ætla að hætta viðskiptum.“

Hann segir bankakerfið of stórt hér á landi og að áfram verði sú þróun að bankastarfsemi færist í auknum mæli á netið. „Allir bankar hafa verið að fækka útibúum til að leita leiða við að spara.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×