Innlent

Viðskiptaráð hlynnt breytingum á skattakerfinu

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Frosti Ólafsson er framkvæmdastjóri VÍ sem fagnar fækkun skattþrepa.
Frosti Ólafsson er framkvæmdastjóri VÍ sem fagnar fækkun skattþrepa. VÍSIR/VALLI
Viðskiptaráð fagnar því að stjórnvöld líti til skattalækkana til að leysa núverandi kjaradeilur.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðinu í kjölfar hugmynda stjórnvalda um breytingar á skattakerfinu til að liðka fyrir lausn kjaradeilna. Í breytingunum felst meðal annars fækkun skattþrepa úr þremur í tvö og veruleg hækkun persónuafsláttar.

Þá kemur fram í tilkynningunni að fækkun skattþrepa væri framfaraskref sem myndi draga úr neikvæðum áhrifum skattkerfisins á vinnuframlag og hvata til menntunar. Það er þó mat ráðsins að mikil hækkun persónuafsláttar sé ekki heppileg leið til lausnar á núverandi deilum. Ráðið telur að slík breyting myndi fjölga þeim sem greiða enga skatta og færa tekjuskattkerfið lengra í átt til aukinnar stigvaxandi skattbyrðar.

Viðskiptaráð telur að við lausn núverandi kjaradeilna sé brýnt að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðar missi ekki sjónar á því að hagfelld skilyrði fyrir aukinni verðmætasköpum séu best til þess fallin að bæta kjör launþega. Hluti af slíkum skilyrðum sé að einstaklingar hafi hvata til að auka við þekkingu sína og skapa þannig aukin samfélagsleg verðmæti. Almenn lækkun tekjuskattshlutfalla eða fækkun skattþrepa væri heppilegri leið til að að ná slíku markmiði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×