Skoðun

Íbúðir fyrir alla

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skrifar
Samfylkingin er í forystu í húsnæðismálunum. Árangurinn má m.a. sjá í Reykjavík þar sem á þriðja þúsund íbúðir eru, eða munu fara, í byggingu á næstu árum í samvinnu við félög sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Auk þess eru þúsundir íbúða í uppbyggingu á hinum almenna markaði. Skorturinn á íbúðum á viðráðanlegu verði er þó alvarlegri en svo að ríkisstjórnin geti setið aðgerðarlaus á meðan sveitarfélögin reyna að mæta vandanum eftir besti getu.

Landsfundur Samfylkingarinnar var svo sannarlega kröftugur og afgreiddi m.a. tillögur í húsnæðismálum sem Samfylkingin mun leggja fram í formi þingsályktunar á næstu dögum. Þar verða bæði tillögur um bráða- og langtímaaðgerðir.

Aðgerðir strax!

Við leggjum m.a. til að húsaleigubætur verði hækkaðar svo þær veiti sambærilegan stuðning og vaxtabætur. Þá þarf að gera ungu fólki og lágtekjufólki kleift að kaupa sér íbúð eða búseturétt með viðbótarlánum með ríkisstuðningi sem bundinn er skilyrðum um fjárhagsaðstæður og hóflegt húsnæði.

Við viljum líka auka framboð á leiguíbúðum strax sem nú eru í útleigu til ferðamanna með því að gera tekjur einstaklinga vegna útleigu á einni íbúð skattfrjálsar með ákveðnum skilyrðum um leiguverð og langtímaleigu. Þá þarf að breyta lögum um skuldaþak sveitarfélaga þannig að lántaka vegna kaupa á félagslegum íbúðum sé undanskilin. Þá getur fjöldi sveitarfélaga mætt þörfum íbúa sinna.

Það þarf meira til

Til að fjölga leigu- og búseturéttaríbúðum til langframa þarf að koma á stofnstyrkjum til húsnæðisfélaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða og útvega lóðir til uppbyggingar á slíku húsnæði. Síðast en ekki síst þarf að breyta stuðningskerfi hins opinbera og búa til eitt kerfi í stað vaxta- og húsaleigubóta, húsnæðisbótakerfi.

Áhugaleysi ríkisstjórnarinnar

Húsnæðismálaráðherra hefur hingað til ekki náð neinum árangri í málaflokknum sem hún kennir sig sérstaklega við. Húsnæðisvandinn verður ekki leystur nema með auknu fé í málaflokkinn. Þar strandar á ríkisstjórninni. Samfylkingin mun krefjast peninga í málaflokkinn og þeir þurfa að koma strax!




Skoðun

Sjá meira


×