Innlent

Tómur bjórkútur sem vopn, kjálkabrot og hnefahögg

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Árásirnar áttu sér meðal annars stað inni á skemmtistöðunum Austur og Glaumbar.
Árásirnar áttu sér meðal annars stað inni á skemmtistöðunum Austur og Glaumbar. Vísir/Pjetur
Aðalmeðferð í málum fjögurra manna sem ákærðir eru fyrir aðild að sex líkamsárásum hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Tvær árásanna áttu sér stað inni á skemmtistaðnum Austur sama kvöld í desember 2013. Sami maður er ákærður í báðum málunum en í fyrra tilfellinu á hann að hafa slegið mann ítrekað með hnefahöggum í höfuðið. Félagi mannsins er einnig ákærður fyrir aðild að árásinni en sá á að hafa slegið brotaþola ítrekað í höfuðið með flösku og krepptum hnefa.

Maðurinn sem ráðist var á hlaut mar í andliti og sjö skurði í höfuð, að því er fram kemur í ákæru, en meintir árásarmenn könnuðust ekki við að hafa lent í átökum inni á staðnum og neituðu sök í málinu fyrir dómi í dag.

Seinni árásin á Austur átti sér stað í anddyri staðarins. Þar eiga tveir menn að hafa í sameiningu ráðist á þann þriðja. Annar mannanna á að hafa slegið hann ítrekað í höfuðið með flösku og þá hann að hafa veitt honum ítrekuð hnefahögg. Brotaþoli hlaut meðal annars skurð hægra megin í andliti og í vör en líkt og í fyrri árásinni á Austur neituðu meintir árásarmenn sök fyrir dómi og kváðust ekki kannast við nein átök.

Sakaður um að hafa slegið dyravörð með glerflösku og tómum bjórkút

Mennirnir tveir sem ákærðir eru í fyrri árásinni á Austur eru einnig ákærðir fyrir sitthvora líkamsárásina á skemmtistaðnum Glaumbar í júlí 2013. Eiga þeir að hafa ráðist á sitthvorn dyravörðinn en neituðu báðir sök fyrir dómi í dag.  

Annar maðurinn á að hafa slegið dyravörð með glerflösku í hnakka auk þess sem honum er gefið að sök að hafa slegið hann í höfuð og búk með tómum bjórkút. Dyravörðurinn hlaut meðal annars opið sár í hnakka svo sauma þurfti sex spor.

Hinum manninum er gefið að sök að hafa slegið og skallað annan dyravörð með þeim afleiðingum að hann marðist meðal annars í andliti.

Þá er þriðji maðurinn, sem einnig er ákærður í seinni árásinni á Austur, sakaður um að hafa ráðist á mann fyrir utan skemmtistaðinn Park í desember 2013. Á hann að hafa slegið brotaþola hnefahöggi í andlitið með þeim afleiðingum að hann féll í götuna. Síðan á ákærði að hafa stappað á eða sparkað í höfuð mannsins með þeim afleiðingum að hann meðal annars kjálkabrotnaði.

Tveir mannanna eru ákærðir fyrir að ráðast á lögreglumann en neita sök í málinu.Vísir/Kolbeinn Tumi
Ákærðir fyrir að ráðast á lögreglumann

Maðurinn sem ákærður er fyrir árásina fyrir utan Park er einnig ákærður fyrir aðild að sjöttu árásinni. Þá á að hann hafa ráðist á lögreglumann fyrir utan heimili hans í Reykjavík í nóvember 2013, ásamt félaga sínum sem einnig er ákærður í málinu. Á sá maður að hafa kýlt lögreglumanninn í andlitið með þeim afleiðingum að hann féll í jörðina. Eiga mennirnir tveir síðan að hafa sparkað ítrekað í lögreglumanninn þar sem hann lá í jörðinni.

Tildrög þess að mennirnir tveir fóru heim til lögreglumannsins voru þau að annar þeirra ætlaði að ræða við félaga sinn sem hann taldi að ætti heima í sama húsi. Maðurinn sagðist fyrir dómi í dag hafa kastað lausamöl í glugga hjá félaga sínum. Hann hafi hins vegar farið íbúðavillt og kastað í glugga á íbúð lögreglumannsins.

Maðurinn sagði að lögreglumaðurinn hafi þá komið út og verið mjög „agressívur.“ Hann hafi því hlaupið í burtu en þá hafi lögreglumaðurinn ráðist á félaga hans. Maðurinn sagðist ekki hafa komið nálægt neinum átökum og neitaði sök og hinn maðurinn einnig, en viðurkenndi þó að hafa lent í átökum við lögreglumanninn.

Vildi halda mönnunum á staðnum þar til lögregla kæmi

Hann kvaðst ef til vill hafa kýlt hann í andlitið en það hafi ekki verið viljaverk. Hann hafi verið að reyna að losa sig þar sem lögreglumaðurinn hélt í úlpuna hans og hann sveiflaði hendinni þannig til að hún gæti hafa farið í andlit mannsins. Þeir hafi svo báðir dottið í götuna og verið í slagsmálum þar en maðurinn sagðist ekki hafa sparkað í lögreglumanninn þar sem lögreglumaðurinn hélt honum niðri og hann gat því ekkert gert.

Fyrir dómi kannaðist lögreglumaðurinn ekki við að sparkað hafi verið í hann en greindi skilmerkilega frá því að hafa lent í átökum við annan mannanna, þó ekki eins og sá lýsti fyrir dómi.

Lögreglumaðurinn hafði hringt á 112 áður en hann fór út að tala við mennina tvo. Hann hafi viljað halda þeim á staðnum en þeir ætlað að flýja. Annar mannanna komst undan en hann náði að stoppa hinn sem kýldi hann þá í andlitið. Lögreglumaðurinn datt þá í jörðina og ákærði lent ofan á honum en hann kvaðst hafa náð að halda honum föstum.

Maðurinn sem hafði hlaupið í burtu kom svo aftur stuttu síðar og reyndi að sparka í lögreglumanninn en tókst það ekki, að því er brotaþoli bar við. Mennirnir hafi síðan hlaupið í burtu og náðu þannig að komast undan lögreglunni sem kom stuttu síðar á svæðið.

Ekki er búist við því að aðalmeðferð ljúki í dag. Fjöldi vitna þarf að koma fyrir dóminn auk þess sem tveir brotaþola eru erlendis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×