Viðskipti innlent

Bein útsending: Seðlabankinn skýrir frá vaxtaákvörðun sinni

ingvar haraldsson skrifar
Þórarinn G. Pétursson og Már Guðmundsson, nefndarmenn í peningastefnunefnd.
Þórarinn G. Pétursson og Már Guðmundsson, nefndarmenn í peningastefnunefnd. vísir/stefán
Peningastefnunefnd ákvað í morgun að halda stýrivöxtum óbreyttum og yrðu áfram 5,75 prósent. Hins vegar var ákveðið að lækka bindskyldu á ný í 2,5 prósent eftir að hún hafi verið hækkuð í 4 prósent í september. Á fundi í morgun greindu fulltrúar nefndarinnar frá ákvörðun sinni fundinn má sjá í spilaranum neðst í fréttinni.

Þá tilkynnti peningastefnunefndin um að líkur væru á að stýrivextir yrðu hækkaðir á ný á næstunni. „Hve mikið og hve hratt það gerist ræðst af framvindunni.“

Í tilkynningu frá Peningastefnunefnd kemur fram að samkvæmt nýbirtum bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands var hagvöxtur 4,5% á fyrstu þremur fjórðungum ársins sem hafi í meginatriðum verið í samræmi við nóvemberspá Seðlabankans. Kröftugur bati haldi einnig áfram á vinnumarkaði. Þá hafi verðbólguhorfur til skamms tíma hafa batnað frá nóvemberspá bankans. „Verðbólga mældist 2% í nóvember. Hún hefur aukist minna undanfarið en spáð var vegna þess að lækkun alþjóðlegs hrávöru- og olíuverðs og hækkun á gengi krónunnar hafa vegið á móti innlendum verðhækkunum.“

Ástæða lækkunar bindiskyldu var að auðvelda Seðlabankanum stýringu á lausu fé bankakerfisins í tengslum við gjaldeyriskaup Seðlabankans og losun fjármagnshafta.  „Peningastefnunefnd hefur nú ákveðið að lækka bindiskyldu á ný úr 4% í 2,5% frá og með næsta bindiskyldutímabili sem hefst 21. desember nk. til þess að milda lausafjáráhrif afhendingar slitabúa gömlu bankanna á stöðugleikaframlögum. Áformað er að bindiskylda lækki að öðru óbreyttu á ný í 2% í tengslum við fyrirhugað útboð vegna svokallaðra aflandskróna.“

Fundinum, sem var í styttra laginu, er nú lokið en hann má sjá í spilaranum hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×