Innlent

Konur þurfa að fleygja sér í sófann

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Langvarandi streita getur haft alvarleg áhrif á heilsuna.
Langvarandi streita getur haft alvarleg áhrif á heilsuna. NORDICPHOTOS/GETTY
Konur þurfa að læra að fleygja sér í sófann þegar þær koma heim úr vinnunni eða á gólfið til að leika við börnin áður en þær taka til við heimilisstörfin. Maður þarf að æfa sig í að slaka á í tíu mínútur. Þetta segir Ane Marie Thulstrup, yfirlæknir á háskólasjúkrahúsinu í Árósum í Danmörku, í viðtali við danska ríkis­útvarpið.

Niðurstöður rannsóknar á þvagi karla og kvenna sýna að streita í líkama karla minnkar hratt eftir að þeir koma heim úr vinnunni en hjá konum minnkar streitan ekki fyrr en á milli klukkan 22 og 23 á kvöldin. Það bendi til að konurnar séu önnum kafnar lengi eftir að vinnu utan heimilis lýkur, að því er segir á vef útvarpsins. Þar segir jafnframt að miklu fleiri konur séu haldnar streitu en karlar.

Anna Björg Aradóttir, sviðsstjóri hjá landlækni, segir rannsóknir benda til að streita sé að verða eitt algengasta vinnutengda vandamál hins vestræna heims. „Streita getur verið hvetjandi í sjálfu sér og hjálpað fólki að ráða við krefjandi aðstæður. Hins vegar segja fræðimenn að verði streita viðvarandi og illviðráðanleg hafi hún slæm áhrif á heilsu fólks.“

Mikilvægt er að stjórnendur vinnustaða geri sér grein fyrir því að mælikvarðar á árangur starfsemi vinnustaðarins taka ætíð bæði til heilsu og velferðar starfsmanna og framleiðni fyrirtækisins. Anna Björg Aradóttir, sviðsstjóri hjá landlækni. Anna Björg Aradóttir
Að sögn Önnu getur langvarandi streita haft í för með sér þunglyndi, kvíða, kulnun, truflun á ónæmiskerfi og hjarta- og æðasjúkdóma.

„Mikilvægt er að stjórnendur vinnustaða geri sér grein fyrir því að mælikvarðar á árangur starfsemi vinnustaðarins taka ætíð bæði til heilsu og velferðar starfsmanna og framleiðni fyrirtækisins.“

Danski yfirlæknirinn segir konur oft skrifa tölvupósta seint á kvöldin. Á vinnutíma séu þær að hugsa um það sem þær þurfi að gera þegar heim er komið. Nauðsynlegt sé að læra að einbeita sér að starfinu á vinnutíma og að fjölskyldunni þegar maður er heima.

Það er mat læknisins að margar konur gætu haft gagn af því að draga úr kröfunum sem þeir gera til sín eða greiða fyrir heimilishjálp þannig að þær hafi tíma til að slaka á í sófanum. Bent er á að konur sinni heimilisstörfum í miklu meiri mæli en karlar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×