Skoðun

Kappið eða fegurðin

Anna G. Steinsen skrifar
Fyrirtæki eyða jafnan löngum tíma í að finna gildi sem eiga að endurspegla stefnu fyrirtækisins. Sumir starfsmenn muna þau aldrei, kannski af því að þau eru ekki nógu vel kynnt eða innleidd í menningu fyrirtækisins. Öðrum tekst betur upp.

Hvað með okkar eigin gildi? Það getur vel verið að við höfum ákveðin gildi án þess að vera eitthvað að hugsa um þau sérstaklega og hvort sem þau eru okkur ljós eða ekki þá hafa þau mikil áhrif á það hvernig við lifum lífinu, bæði hvað varðar ákvarðanir og hegðun. Dæmi um persónuleg gildi eru til dæmis heiðarleiki, kærleikur, vilji, jákvæðni. Ef við gefum okkur tíma og skilgreinum hver okkar gildi eru í lífinu þá er spurningin hvort við lifum eftir þeim eða hvort þau eru orð á blaði. Ef eitt af okkar gildum er jákvæðni, erum við þá að lifa samkvæmt því? Skrif á daglegum tölvupóstum og fésbókarfærslum, samræmist það því að ég vil vera jákvæð eða er ég kannski bara jákvæð “ spari“ og gleymi mér þegar ég sekk djúpt inn í mitt þægindasvið, sófann með tölvuna.

Þegar leikurinn stóð sem hæst, í aðdraganda hrunsins..... hefði þá ekki verið gott að staldra við og hugsa.....þessi ákvörðun, samtal, tölvupóstur, verknaður, ....samræmist hann því hver ég er og því sem ég stend fyrir? Er þetta í takt við mín gildi og minn kjarna. Eða er kappið hugsanlega farið að bera fegurðina ofurliði? Daglegir hluti eins og hvernig við tölum við börnin okkar, maka og starfsfélaga, er ég mikið að baktala aðra eða gagnrýna og ef svo er samræmist það því hver ég vil vera? Er það, sem ég set á samfélagsmiðlana til dæmis, að endurspegla mín gildi.

Gefum okkur tíma til að staldra við í dagsins önn og skoða hver við erum og hvað við viljum standa fyrir. Það gæti haft jákvæð áhrif á okkur og aðra.




Skoðun

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×