Skoðun

Opin fyrirspurn til Þrastar Helgasonar dagskrárstjóra Rásar 1

Ingunn Ásdísardóttir skrifar
Nú er mér allri lokið. Var þá ekkert að marka öll fögru orðin um menningarhlutverk og menningarstarf Ríkisútvarpsins og nauðsyn þess að halda því áfram og efla það?

Þær tvær konur sem nú eiga að taka pokann sinn, eru meðal þeirra fáu starfsmanna Ríkisútvarpsins (sem eftir eru) sem enn gera áheyrilega og fróðlega þætti, þætti sem segja manni eitthvað spennandi, framandi og nýtt, eitthvað sem víkkar sjóndeildarhringinn. Þætti sem gera Ríkisútvarpið að útvarpi með menningarhlutverk og sem sinnir menningarstarfi.

Þarna á að reka tvær konur sem kunna sitt fag, kunna á miðilinn, kunna að tala til hlustenda, hafa gríðarlega reynslu í dagskrárgerð og ómetanlega þekkingu sem þær kunna að koma til skila í einmitt þessum miðli. Og ef á að reka Hönnu G. Sigurðardóttur, því þá ekki Leif Hauksson líka? Og ef á að reka Sigríði Stephensen, því þá ekki Kjartan Guðmundsson líka? Eða stendur það kannski til - bara svona rétt bráðum? Bara ekki alla í einu eins og Páll gerði.

Þröstur Helgason, er það þín einlæg sannfæring að þessi ráðstöfun verði Rás 1 til góðs? Er það þín einlæg sannfæring að enginn hlusti á Rás 1? Og er það þín einlæg sannfæring að þeir fáu sem það þó gera séu einskis verðir og það þurfi ekkert að taka tillit til þeirra?

Svör óskast í opinberum miðli.

Hvernig þætti vilt þú fá?

Fyrir hverja, ef ég má spyrja, varst þú sjálfur með þætti um Birting um daginn? Hélst þú að enginn myndi hlusta á þá? Eða hélstu kannski að við sem hlustum á Rás 1, vildum bara hlusta á þá en ekki á neitt annað markvert og fróðlegt sem boðið er upp á á Rás 1? Eða hélstu kannski að þeir væru svo miklu betri en allir aðrir þættir sem annað dagskrárgerðarfólk gerir, að þeir væru boðlegri og hinu mætti úthýsa?

Svör óskast í opinberum miðli.

Og ég leyfi mér að spyrja hvernig þætti vilt þú fá á Rás 1 – með nýjum þáttagerðarmönnum sem þú ætlar væntanlega að ráða í stað hinna reknu, og ég leyfi mér að efast um að þú finnir reynslumeira fagfólk en þær sem þú nú rekur? Eiga það að verða þættir um málefni líðandi stundar? Eiga það að verða tónlistarþættir? Eiga það að vera þættir um menningu og listir? Eiga það að vera þættir um eða með sagnfræðilegu ívafi? Eiga það að vera þættir sem segja fólki eitthvað, fræða það, víkka sjóndeildarhring þess, etc? Eða eiga það að vera kjaftaþættir um allt og ekkert? Svör óskast í opinberum miðli.

Í allra síðasta lagi, vil ég sem einn af eigendum þessarar stofnunar – og dyggur hlustandi ásamt fjölda annarra (þó að þér finnist það kannski ekki nógu margir) fá að vita skýrt og greinilega hvað átt er við með eftirfarandi fremur hrollvekjandi orðum „gjörbreyta eðli og anda Rásar 1“?

Svör óskast í opinberum miðli.








Tengdar fréttir

Að reka konur

Kúnstin hjá góðum stjórnanda er að nýta sér þá þekkingu sem í fyrirtækinu er og laða fram nýja og óvænta eiginleika hjá fólki sem lengi hefur fengist við það sama, fá nýtt sem lærir af því eldra og veitir því innblástur en ekki henda þeim útbyrðis sem eldri eru.




Skoðun

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×