Standlampar og sófasett
Eins og vaninn er, þegar svona þekktar hljómsveitir ferðast, eru strangar kröfur gerðar um aðbúnað í búningsherbergjum. Sveitin fer fram á fimm mismunandi búningsherbergi og í hverju þeirra á að vera sófasett og er sérstaklega tekið fram að sófarnir eigi að vera í stíl. Einnig er farið fram á tvo borðlampa í hverju herbergi auk standlampa. Meðlimir gera kröfu um sjónvarp í hverju herbergi, nokkur sófaborð og vilja hafa teppi á gólfinu.
Ítarlegar kröfur um máltíðir
Sveitin, sem er á tónleikaferðalagi um Evrópu, er með fjölmarga starfsmenn í kringum sig. Á Evróputúr sveitarinnar hafa verið allt að fimmtíu manns í teyminu í kringum hana. Gerð er krafa um að kokkur eldi sérstaklega fyrir hópinn á þeim stað sem hópurinn er á hverju sinni.
Ætlast er til þess að meðlimir og fylgilið Kings of Leon geti valið úr ýmsu, hvort sem það er í morgunmat, hádegismat eða kvöldmat. Á ferðalagi sínu hefur sveitin farið fram á að maturinn sé ekki eldaður annars staðar og komið með hann í hitabökkum. „Slíkt er hvorki hollt né heillandi,“ segir í orðsendingu sem tónleikahaldarar á Evróputúrnum hafa hingað til fengið.
Nákvæmur listi
Ísleifur Þórhallsson, tónleikahaldari hjá Senu sem flytur sveitina inn, neitar að tjá sig um kröfur sveitarinnar. En sé listinn af því sem meðlimir sveitarinnar vilja fá hér á landi jafn ítarlegur og annars staðar er ljóst að flytja þarf nokkrar sælgætis- og drykkjartegundir sérstaklega inn fyrir tónleikana. Meðal annars er farið fram á sérstaka tegund af kókosvatni, túnfisksalat, heimalagað íste (ekki of sætt), ferskan hummus og Diet Dr. Pepper, bæði með og án koffeins. Sveitin leggur einnig fram sérstakan lista af víntegundum fyrir tónleikahaldara. Sveitin nefnir átta tegundir af hvítvíni og níu tegundir af rauðvíni.
Mikið umfang
Fregnir hafa borist af því að tveir trukkar komi hingað til lands með búnað sem nota á fyrir tónleikana. Trukkarnir koma hingað til lands með Norrænu og munu sjást á þjóðvegum landsins þegar þeir keyra til Laugardalshallar frá Seyðisfirði. Samkvæmt heimildum blaðsins verða þeir fullir af hljóðfærum og aukaljósabúnaði og viðbót við hljóðkerfið sem á að skila sér í mikilli upplifun áhorfenda. Kings of Leon er ein þekktasta rokksveit heims og er hún þekkt fyrir líflega sviðsframkomu.