Skoðun

Um aldraða fólkið á Íslandi

Jón Aðalsteinn Hermannsson skrifar
Við viljum bera ábyrgð á lífi okkar og lifa góðu lífi til gamals aldurs. Markmið stjórnmálamanna hvers tíma er að skapa okkur möguleika til þess.

Ríkisstjórnin á Íslandi, núna í tvö ár, byrjaði strax að skerða lífskjör þeirra launalægstu í þjóðfélaginu, með hækkun matarskatts, en jók greiðslur til eftirlaunaþega sem höfðu hærri tekjur en 200 þús. á mánuði, þeirra launahæstu, um allt að 90 þús. á mánuði, eitt fyrsta verk félagsmálaráðherra (kostaði þrjá milljarða það árið). En þeir eftirlaunaþegar er höfðu lægri tekjur en 200 þús. fengu ekki neitt.

Verið var að skila til baka lækkun þessara sömu lífeyrisþega sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur skerti greiðslur til, en hlífði þeim tekjulægri.

Nú snúa allar gjörðir á hinn veginn, þeir sem búa við góð kjör fá hækkanir t.d. með lækkuðum skatti, og felldir niður skattar á mestu auðmennina, þá sem mesta hafa greiðslugetuna. (ameríska aðferðin).

Hækkanir til lífeyrisþega með lægstu tekjurnar hafa komið tvisvar, 1. ágúst 2014 kr. 3.665 og 15. janúar 2015 um 5 þús. kr. Afar rausnarlegt hjá félagsmálaráðherra Framsóknarflokksins. Hvað er til ráða? Landssamband eldri borgara lýsti yfir ánægju sinni með hækkanir til eftirlaunaþega frá TR. En lét þess að engu getið að þeir sem höfðu lægri tekjur en 200 þús. fengu nær engar hækkanir 2014. Hvað gerist á þessu ári, 2015?

Hvað gerir Landssambandið? Sjáið þið fyrir ykkur möguleikana, sem við höfum til að lifa mannsæmandi lífi á launum sem eru lægri en 200 þús. kr. á mánuði? Er íslenska þjóðin svona fátæk? Reyndar er talað um 50 þús. manns sem lifi á um 180 þús. kr. á mánuði.

Hvort sem fólkið býr í eigin íbúð eða ekki þá eru möguleikarnir engir til lífsgæða, sem þykja sjálfsögð meðal siðaðra þjóða.




Skoðun

Sjá meira


×