Skoðun

Til hamingju með daginn!

Ólafía B. Rafnsdóttir skrifar
Dagurinn í dag er helgaður jafnrétti kynjanna. Allt árið 2015 er í raun helgað jafnréttismálum. Við fögnum aldarafmæli kosningaréttar kvenna til Alþingis og minnumst framlags þeirra til samfélagsins í áranna rás.

Stórt skref í jafnréttisátt

Sá merki viðburður sem við fögnum í dag, 19. júní, átti sér langan aðdraganda. Árið 1885 ritaði frumkvöðullinn Bríet Bjarnhéðinsdóttir grein í Fjallkonuna undir heitinu „Nokkur orð um menntun og rjettindi kvenna“. Hið íslenska kvenfélag var stofnað nokkrum árum síðar en það var fyrsta félagið sem hafði það á sinni stefnuskrá að auka réttindi kvenna. Árið 1907 var Kvenréttindafélag Íslands síðan stofnað en markmið þess var að „starfa að því að konur fái fullt stjórnmálajafnrétti á við karlmenn, kosningarétt og kjörgengi svo og embættisgengi og rétt til atvinnu með sömu skilyrðum og þeir,“ eins og fram kemur á vef félagsins. Loksins árið 1913 var frumvarp um kosningarétt kvenna 40 ára og eldri lagt fram – það var samþykkt og síðan staðfest á þessum degi fyrir einni öld. Því fögnum við í ár og full ástæða til. Kosningaréttur kvenna var stórt skref í átt til jafnréttis karla og kvenna – enda um sjálfsagðan rétt beggja kynja að ræða.

Baráttan heldur áfram

Konur brjóta niður hindranir á hverjum degi í baráttu sinni fyrir jafnrétti. VR var stofnað fyrir rúmri öld af körlum og var í raun lokaður karlaklúbbur fyrstu árin. Fyrsta konan sem gekk í VR var Laura Hansen árið 1900 en þegar hún sótti um inngöngu í félagið var henni það ekki heimilt, samkvæmt lögum félagsins. Eftir miklar umræður var umsókn hennar loks samþykkt og gerð var breyting á lögum VR sem heimilaði inngöngu kvenna. Í dag eru fleiri konur en karlar í félaginu og formaður þess er undirrituð.

Launalausar í mánuð á ári

En þó að margt hafi breyst er baráttunni langt frá því lokið. Hér er ég að sjálfsögðu að tala um stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Í haust eru liðin 40 ár frá því að konur í tugþúsunda tali lögðu niður störf til að krefjast sömu launa og karlar. Kvennafrídagurinn árið 1975 markaði tímamót í sögu jafnréttisbaráttunnar á Íslandi. Samstaða kvenna á þessum degi var einstök og allir – bæði konur og karlar – fundu áþreifanlega fyrir því hve mikilvægur þáttur kvenna er á vinnumarkaði. Við hjá VR höfum reiknað það út að kynbundinn launamunur kostar konur í félaginu mánaðarlaun árlega. Það þýðir að konur þurfa að vinna launalaust í einn mánuð á ári áður en þær fá greidd sömu laun og karlar fyrir sambærilegt starf. Með sama hraða, náum við í VR launajafnrétti eftir tuttugu ár.

Er það eitthvað sem við sættum okkur við? Nei, auðvitað ekki. Það er óásættanlegt að nokkur telji réttlætanlegt – árið 2015 – að greiða konum lægri laun en körlum fyrir sama starf. Í ár veltum við því upp hvernig við getum best undirbúið dætur okkar og syni fyrir framtíð jafnréttis og jafnræðis. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft – höfum jafnrétti alltaf í forgrunni. Allir dagar eiga að snúast um jafnrétti, ekki bara 19. júní.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×