Skoðun

Heiðursdoktor í stjórnmálafræði

Þorgerður Einarsdóttir skrifar
Það hafa sannarlega skipst á skin og skúrir þau 100 ár sem liðin eru síðan íslenskar konur fengu kosningarétt árið 1915. Sigurvíma og vonbrigði kallast á, tekist er á um hugmyndir og hugsjónir, einstaklinga og hreyfingar. Konur sem studdu kvenréttindi og kosningarétt í upphafi síðustu aldar vildu að konur létu til sín taka á öllum sviðum þjóðlífsins.

Þær tókust á við húsmóðurhugmyndafræðina, konur og karla sem töldu móður- og húsmóðurhlutverkið vera meginhlutverk kvenna og óttuðust að þátttaka kvenna í opinberu lífi væri ógn við þjóðina og leiddi til upplausnar heimilanna. Um þetta deildu Ingibjörg H. Bjarnason og Jónas frá Hriflu í sölum Alþingis þar sem Jónas útmálaði hana sem svikara. Kvenréttindakonur höfðu hugsjónir langt umfram það að rétta af kynjahalla, þær trúðu á hugmyndir um samhjálp og samstöðu og hafa seinni tíma fræðingar talið pólitík þeirra bera keim af umhyggju- og réttlætissjónarmiðum. En sjónarmiðin voru hvorki einsleit né séríslensk, þau voru hluti af alþjóðlegum hugmyndastraumum sem þarf að skilja og túlka í sínu sögulega samhengi.

Enn takast fræðimenn á um þýðingu og afleiðingar þátttöku kvenna í stjórnmálum og þjóðmálum almennt. Breyta konur stjórnmálunum sjálfkrafa? Er lýðræði þegar höfðatala kynjanna er jöfn? Er fjölgun kvenna ein og sér nægileg til að stjórnmálin taki mið af hagsmunum kvenna? Eru yfirhöfuð til sérstök hagsmunamál kvenna og skiptir máli hvaða konur veljast til forystu? Hafa konur þróað með sér umhyggjusjónarmið umfram karla og ef svo er hvernig birtist það?

Hvatning og innblástur

Meðal þeirra fyrstu til að fjalla um á fræðilegan hátt um kyn, völd og stjórnmál er Anna Guðrún Jónasdóttir, prófessor í kynja- og stjórnmálafræði við Örebro-háskóla í Svíþjóð. Anna Guðrún er íslenskum kvenna- og kynjafræðingum að góðu kunn. Hún var fyrst íslenskra kvenna að taka doktorspróf í stjórnmálafræði og fá akademískan frama í stjórnmála- og kynjafræði. Hún var lykilfyrirlesari á fyrstu íslensku ráðstefnunni um kvennarannsóknir árið 1985 þar sem hún setti fram nýstárlega kenningu um hið samfélagslega kynjakerfi út frá tengslum og samskiptum kynjanna. Hún sagði konur veita umhyggju og orku sem karlmenn þæðu og nýttu sér til framdráttar í lífi og starfi, og kynjamisréttinu yrði seint útrýmt ef ekki væri hugað að þessu.

Fræðilegt ævistarf Önnu G. Jónasdóttur hefur verið íslensku fræðafólki hvatning og innblástur. Framlag hennar felst ekki síst í því að samþætta stjórnmálafræði og kynjafræði en það hefur hún gert með því að byggja á arfleifð hefðbundinnar stjórnmálafræði og í senn víkka út mörk hennar. Anna verður gerð að heiðursdoktor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands 18. júní nk. í tengslum við ráðstefnuna „Vald og lýðræði 100 árum síðar“ og verður hún fyrsti heiðursdoktor deildarinnar. Það er við hæfi að gera Önnu Guðrúnu Jónasdóttur að heiðursdoktor á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna en í okkar virðulegu aldargömlu stofnun, Háskóla Íslands, eru níu af hverjum tíu heiðursdoktorum karlar.




Skoðun

Sjá meira


×