Skoðun

Starf bráðahjúkrunarfræðings

Hrönn Stefánsdóttir skrifar
Líf fólks getur breyst á einni mínútu. Ég er hjúkrunarfræðingur á Bráðamóttökunni í Fossvogi og ef þú lendir í slysi eða alvarlegum sjúkdómi þá gæti það vel verið svo að ég myndi taka á móti þér. Mig langar til þess að kynna fyrir þér, ágæti lesandi, hlutverk hjúkrunarfræðinga á Bráðamóttökunni.

Ég hef alltaf verið stolt af starfi mínu. Ég hef komið heim til mín mjög sátt með dagsverkið og stolt af því að vera hluti af þessu frábæra teymi sem starfar á Bráðamóttökunni.

Það eru kannski ekki margir sem leiða hugann að starfi hjúkrunarfræðinga. Hjúkrunarfræðingar eru órjúfanlegur hlekkur í heilbrigðisþjónustunni. Af rúmlega 4.500 starfsmönnum Landspítala-Háskólasjúkrahúss eru um 1.500 hjúkrunarfræðingar.

Til þess að starfa sem hjúkrunarfræðingur á Bráðamóttökunni þurfum við að hafa lokið a.m.k. 4 ára háskólanámi í hjúkrun frá háskólum eins og Háskóla Íslands eða Háskólanum á Akureyri. Margir hjúkrunarfræðingar hafa ýmsa sérhæfingu s.s. eins og meistaranám, diplómanám og doktorsnám. Þar að auki þurfum við að vera í stöðugri símenntun. Það felur í sér að sitja fjölda námskeiða ár hvert. Sækja rýnifundi í hverri viku. Þar að auki komum við saman nokkrum sinnum á ári á stórum deildarfundum þar sem við förum yfir áherslur á hin ýmsu málefni sem tengjast starfi okkar og fáum fræðslu varðandi nýjungar og verklag í starfi.

Búa yfir mikilli þekkingu

Hjúkrunarfræðingar á Bráðamóttökunni vita aldrei hvernig dagurinn á eftir að þróast. Þeir taka á móti sjúklingum bæði í gegnum biðstofuna og við móttöku á sjúkrabílum og þyrlum.

Hjúkrunarfræðingar forgangsraða sjúklingum eftir alvarleika sjúkdóma eða slysa. Þeir þurfa því að búa yfir mikilli þekkingu og „klínísku nefi“ til þess að vita hvenær eða hvort það þurfi að hefja meðferð strax, innan 10 mínútna eða hvort sjúklingur geti beðið lengur eftir skoðun læknis.

Vaktstjórar á Bráðamóttökunni eru hjúkrunarfræðingar. Vaktstjóri á Bráðamóttöku er tengiliður Bráðamóttökunnar við aðra viðbragðsaðila.

Á Bráðamóttökuna kemur margbreytilegur sjúklingahópur. Það gerir kröfu til okkar að við þurfum að hafa mikla þekkingu á öllum líffærakerfum líkamans, starfsemi hans og þekkja niðurstöður rannsókna og myndgreininga svo fátt eitt sé nefnt.

Sá sjúklingahópur sem við sinnum eru lungnasjúklingar sem eru margir súrefnisháðir, hjartasjúklingar, krabbameinssjúklingar, aldraðir, einstaklingar sem orðið hafa fyrir alvarlegum eða minniháttar slysum, einstaklingi sem hefur lent í áfalli, einstaklingi sem hefur verið nauðgað, einstaklingi í sjálfsvígshugleiðingum eða í alvarlegri andlegri vanlíðan og svona mætti lengi telja.

Það er því að öllum líkindum hjúkrunarfræðingur sem tekur á móti þér ef þú lendir í einhverju ofangreindu. Við erum ekki að telja þetta eftir okkur, flest okkar elska starfið sitt, við völdum þetta starf vegna áhuga á manneskjunni, heilsu og sjúkdómum.

Við viljum að starf okkar sé metið með hliðsjón af tvennu, annars vegar menntun og hins vegar ábyrgð.

Starfsfólkið er grunnurinn

Ég hef sjálf búið og starfað í öðru landi. Ég starfaði sem hjúkrunarfræðingur í 3 ár í Bandaríkjunum og kom heim árið 2011. Í Bandaríkjunum voru launin helmingi hærri fyrir styttri vinnuviku. Ég var vel metin. Þar þótti aðdáunarvert að allir hjúkrunarfræðingar væru með Bachelor's Degree á Íslandi. Það er ekki algilt þar.

Þegar ég flutti aftur til Íslands fylltist ég stolti yfir því að sjá hversu mikill metnaður er innan minnar fagstéttar. Hjúkrunarfræðingar á Íslandi eru með mikinn metnað í starfi. Ég veit að marga hjúkrunarfræðinga eins og mig langar til að byggja upp spítala sem er með því besta sem þekkist. Heilbrigðiskerfi okkar Íslendinga er ekki gott eins og staðan er í dag. Þar nægir að nefna sögur sem margar hafa ratað í fjölmiðla s.s. eins og sögur um ónóga meðferð, um bilaðan tækjabúnað og svo má lengi telja.

Grunnurinn að uppbyggingu heilbrigðisþjónustu á Íslandi er starfsfólkið. Ef fólk sér ekki fram á að geta veitt sér mannsæmandi lífsviðurværi þá liggur beinast við að leita starfa í öðrum geirum eða í öðrum löndum. Íslenskir hjúkrunarfræðingar eru vel menntaður starfskraftur sem getur með auðveldum hætti starfað í öðrum löndum. Því miður þá sé ég mig kannski knúna til að fara aftur af landi brott, þar sem að ég þarf að hlúa að minni fjölskyldu. En það sem við höfum búið að síðustu ár er mannafli, flott fólk með góða og mikilvæga þekkingu, ástríðu fyrir starfi sínu og metnað. Þetta fólk megum við ekki missa.

Þróunin er sú í öðrum löndum að fólk er farið að velja sér annan vettvang að atvinnu, það sjáum við í nágrannalöndum okkar. Það er þróun sem við verðum að koma í veg fyrir, það yrði líka mjög dýrt fyrir íslenska ríkið að kaupa aðfluttan mannafla til að sinna þessum störfum.

Ég virkilega vona að ráðamenn þessa lands sjái að það þurfi að setja heilbrigðiskerfið og starfsmenn þess í forgrunn og byggja upp þessa rjúkandi rúst sem það er því miður orðið.

Það er nokkuð borðleggjandi að hjúkrunarfræðingar munu leita til annarra landa sé einungis horft til þess endurgjalds (launa) sem ríkið er tilbúið að greiða fyrir þá fjárfestingu sem nám í hjúkrunarfræði er.




Skoðun

Sjá meira


×