Skoðun

Þriðja aflið

Ketill Berg Magnússon skrifar
Auk hins opinbera geira og viðskiptageirans samanstendur samfélag okkar af þriðja geiranum. Ólíkt hinu opinbera og fyrirtækjum felast í þriðja geiranum frjáls félagasamtök og sjálfseignarstofnanir sem starfa í almannaþágu, reiða sig að miklu leyti á sjálfboðastörf og starfa ekki með hagnaðarvon að leiðarljósi. Slík félög sinna hjálparstarfi, umönnun, íþróttum, menningu, vísindum og öðrum mikilvægum verkefnum í samfélaginu.

Framlag til farsældar

Starf félagasamtaka og sjálfboðaliða er ekki tekið með í reikninginn þegar hagtölur hérlendis eru teknar saman. Hlutur þriðja geirans vegur þó þungt í hagtölum þjóða samkvæmt rannsókn Johns Hopkins háskólans, bæði sem hlutfall af vinnuafli þjóða og heildarþjóðarframleiðslu. Nýjar aðferðir sem nú eru að ryðja sér til rúms til að mæla hagsæld þjóða gefa vísbendingu um að þriðji geirinn eigi jafnvel enn meiri þátt í farsæld þjóða en áður var talið.

Öflugri saman

Frjáls félagasamtök sinna ólíkum verkefnum og starfa hvert með sínum hætti. Almannaheill – samtök þriðja geirans er vettvangur fyrir öll félagasamtök og sjálfseignarstofnanir sem vinna að heill ótiltekins fjölda fólks án hagnaðarvonar. Öflug regnhlífarsamtök þriðja geirans auka þekkingu og skilning stjórnvalda, fjölmiðla og almennings á hlut sjálfboðaliða með hugsjónir, fórnfýsi og ábyrgt skipulag að leiðarljósi í efnahagslegri og samfélagslegri velferð okkar. Því fleiri almannaheillasamtök sem fylkja sér undir merki Almannaheilla, þeim mun öflugri verður rödd þriðja geirans í samfélaginu – þar á meðal gagnvart stjórnvöldum og opinberum stofnunum.

Fundur fólksins

Samtökin Almannaheill eru einn af aðstandendum Fundar fólksins í Vatnsmýrinni 11. -13. júní nk. Þar munu Almannaheill meðal annars efna til málþings um mikilvægi frjálsra félagasamtaka í samfélaginu. Aðalfyrirlesarinn verður Sir Stephen Bubb, framkvæmdastjóri félags stjórnenda sjálfboðasamtaka í Bretlandi. Fundurinn fer fram í Norræna húsinu þann 12. júní kl. 15-17 og er öllum opinn.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×