Lífið

Missir sína sérstöðu með aldrinum

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Halldór Halldórsson, betur þekktur sem Dóri DNA, stendur á miklum tímamótum og fagnar þrjátíu ára afmæli sínu í dag.
Halldór Halldórsson, betur þekktur sem Dóri DNA, stendur á miklum tímamótum og fagnar þrjátíu ára afmæli sínu í dag. vísir/daníel
„Að sjálfsögðu verður svaka partí í kvöld,“ segir rapparinn, uppistandarinn og gleðigjafinn Halldór Laxness Halldórsson, betur þekktur sem Dóri DNA. Hann stendur á miklum tímamótum í dag því hann fagnar þrjátíu ára afmæli sínu og ætlar að gera það með glæsibrag. „Partíið verður fyrir velunnara og þar verð ég með þemað vestræn gildi,“ segir Dóri.

Þema partísins, hin vestrænu gildi, kom til þegar hann var steggjaður. „Steggjunin mín endaði í partíi hjá foreldrum mínum í Mosfellsdalnum. Við stálumst svo í sundlaugina í Gljúfrasteini. Þetta var svolítið eins og þegar bandarísku hermennirnir eru að rífa niður stytturnar í bardögum og fóru strákarnir í lauginni því að hrópa vestræn gildi, vestræn gildi,“ útskýrir Dóri spurður út í þemað. Þá verður boðið upp á alvöru vestrænar veitingar í veislunni.

Dóri segist þó finna fyrir því að hann sé að eldast. „Ég finn að ég er að missa gífurlega mikið. Ég hef alltaf átt eldri vini, sem eru yfirleitt á bilinu tveimur til fimm árum eldri en ég. Í þá daga gat ég komið á óvart og menn sögðu oft, þú ert ekki eldri en þetta. Nú er það búið, ég er bara þrítugur gaur með tvö börn og er að missa alla sérstöðu,“ segir Dóri léttur í lundu og hlær.

Hann er þó bjartsýnn þótt hann sé kominn á fertugsaldurinn og er með sín markmið klár. „Ég hef verið að grenna mig undanfarið og ætla að taka enn meira á því núna. Ég ætla að vera orðinn talsvert spengilegri í haust.“

Dóri stendur þó á tímamótum á öðrum sviðum einnig, því hann er að flytja norður á Akureyri í haust. „Ég er að fara að leika í leikriti fyrir norðan sem við Saga Garðarsdóttir erum að skrifa,“ segir Dóri. Hann segist vera spenntur fyrir höfuðstað Norðurlands. „Ég var að skemmta þarna með Mið-Íslandi um daginn og mér líst rosalega vel á fólkið og bæinn. Þetta er auðvitað Kaupmannahöfn norðursins,“ bætir Dóri við glaður í bragði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.