Skoðun

Ekki tala saman

Guðmundur Steingrímsson skrifar
Það er mjög mikilvægt að tala ekki mikið við annað fólk. Annað fólk getur verið annarrar skoðunar en maður sjálfur. Ef annað fólk hefur rétt fyrir sér, þá þarf maður að breyta öllu sem maður hefur ákveðið. Það er vesen.

Ég held að tilhneigingin til þess að nálgast mannlífið svona sé rót margra vandamála hér á landi. Það er skoðun Bjartrar framtíðar að flest mál sé hægt að leysa með því að tala saman. Krafa um samráð í stjórnmálum hefur verið rauður þráður í málflutningi okkar frá stofnun.

„Þið viljið bara að öll dýrin í skóginum séu vinir. En lífið er ekki Dýrin í Hálsaskógi!“ Á þennan hátt hefur krafa Bjartrar framtíðar oft verið léttvæg fundin. Það er ekki á nokkurn hátt krafa okkar að fólk sé vinir. Fólk má vera óvinir. Við gerum hins vegar þá kröfu, að fólk – bæðir vinir og óvinir – líti á það sem skyldu sína í siðmenntuðu samfélagi að tala saman. Við viljum að fólk reyni sífellt, í sameiningu, að finna álitlegar leiðir til lausnar á vandamálum og koma í veg fyrir hörmungar. Í stjórnmálum er þessi krafa einstaklega mikilvæg. Þar er verið að sýsla með hag almennings og framtíð barna okkar.

Hvað ætli samráðsleysið sem ríkir í samfélaginu núna kosti? Ástæða þess að Björt framtíð boðar samráð er ekki sú að við séum hippar. Hún er þessi: Samráðsleysi og botnlausar deilur leiða til sóunar á tíma, hæfileikum og peningum. Alþingi er dæmi um þetta og það sem meira er: Íslenskt samfélag í heild sinni er um þessar mundir átakanlegur vitnisburður um þann gríðarlega kostnað sem langvarandi samráðsleysi hefur í för með sér. Það eru verkföll úti um allt. Stálin stinn mætast með óheyrilegum skaða fyrir samfélagið. Því miður.

Hvernig gerðist þetta? Aðrar þjóðir hafa náð að höndla deilur um kaup og kjör með miklu farsælli hætti en við. Hvernig er hægt að stýra svona velmegunarsamfélagi út í þvílíkar ógöngur? Mér finnst svarið blasa við: Með þvermóðsku. Stífni. Einræðistilburðum. Svikum. Skætingi. Dylgjum. Með því að tala ekki saman.

Höldum því áfram, endilega. Ekkert fjandans Dýrin í Hálsaskógi.




Skoðun

Sjá meira


×