Innlent

Segir nágranna ganga of langt með kæru

Elma með hunda sína og dætra sinna.
Elma með hunda sína og dætra sinna.
„Ég get ekki fullyrt að hundarnir hafi aldrei valdið ónæði og ég hef beðist velvirðingar á því í svari til heilbrigðisnefndarinnar. En núna finnst mér þetta gengið of langt,“ segir Elma Cates um kvartanir undan hundum sem hún á.

Íbúi við Fífuvelli í Hafnarfirði er ósáttur við hundahald nágranna sinna en hann segir að mikið ónæði skapist í hverfinu vegna þessa. Maðurinn telur að nágrannarnir stundi hundarækt án tilskilinna leyfa.

Maðurinn kvartaði í september í fyrra yfir hundahaldi nágranna sinna við Furuvelli til heilbrigðiseftirlitsins sem hafnaði þeirri beiðni að takmarka hundahald nágrannanna og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála staðfesti síðar þá afgreiðslu.

Maðurinn benti á að í reglugerðum um hundahald segði að ef aðili gerist uppvís að því að stunda starfsleyfisskylda starfsemi án leyfa beri að stöðva hana. Vegna fjölda hunda á heimili nágrannans væri í raun um starfsskylda starfsemi að ræða.

„Það er bara ekki rétt,“ segir Elma Cates. „Ég hef leyfi fyrir fjóra hunda og á fjóra hunda,“ segir hún.

Þó segir Elma að stundum passi hún hunda dætra sinna og þá séu þeir fleiri á heimilinu.

„Hingað komu fulltrúar frá eftirlitinu og skoðuðu aðstöðuna og sögðu að hér væri allt til fyrirmyndar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×